Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 17:37:45 (3999)

2000-02-03 17:37:45# 125. lþ. 56.4 fundur 231. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (fasteignagjöld) frv. 92/2000, Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem fram fóru um þetta frv. Ég vil aðeins gera athugasemdir við það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði um þessi mál.

Í fyrsta lagi er ekki rétt lýsing hjá honum á því sem gerðist þegar Þróunarsjóðurinn var að kaupa þau tilteknu hús sem hér er um að ræða. Það var ekki þannig að menn hefðu ekki hirt um húsin, öðru nær. Það var ágætlega um þessi hús hirt.

Við skulum bara ekki gleyma því til hvers Þróunarsjóðurinn var settur á laggirnar. Hann var settur á laggirnar til þess að reyna að hjálpa til í sjávarútveginum á þeim tíma til að þar gæti farið fram ákveðin skipulagsbreyting, hjálpað mönnum við það t.d. að sameina aflaheimildir á skipum og þess vegna keypti hann upp skip og síðan gátu menn þá sameinað aflaheimildir og hann greiddi úr þessu o.s.frv. Og svo voru menn að selja skipin úr landi eins og við þekkjum. Allt var þetta hugsað til þess að reyna að styrkja og efla sjávarútveginn og hann stóð síðan undir þessu með tilteknu þróunarsjóðsgjaldi eins og við munum. Nákvæmlega sama var gert varðandi fiskvinnsluna. Fiskvinnslan var í þessari stöðu eins og menn sögðu. Húsin voru of mörg miðað við þann samdrátt sem hafði orðið og þess vegna var farið í þetta mál.

Nú getum við auðvitað deilt um þetta. Þetta varð niðurstaðan á sínum tíma. En ég held að hugsunin hafi aldrei verið sú að þetta yrði gert þannig að það ylli tekjutapi sveitarfélaga í þeirri stöðu að þar væru hús sem keypt yrðu upp. Ég get ekki ímyndað mér það og ég þóttist nú fylgjast nokkuð vel með þegar þessi umræða fór fram á sínum tíma í þinginu. En ég held að það hafi aldrei nokkurn tíma verið í umræðunni að þetta ætti að valda því að tekjurnar minnkuðu. Það var ekki sérstakur greiði fyrir þessi sveitarfélög að sjóðurinn fór að kaupa upp fiskvinnsluhús heldur var þetta hluti af ákveðinni uppstokkun sem menn vildu að ætti sér stað í sjávarútveginum. Þegar uppstokkunin átti sér stað átti ekki að senda sveitarfélögunum reikninginn í formi þess að þau innheimtu lægri fasteignagjöld.

Á þetta, hv. þm., erum við flutningsmenn í raun og veru að leggja áherslu og alveg sérstaklega í ljósi þess að sú staða er uppi að nú hefur það bara æxlast þannig að tvö hús hafa orðið eign sjóðsins í öll þessi ár, í kannski fimm ár eða svo. Þess vegna er þetta mjög óeðlilegt til frambúðar a.m.k. Ég tel það reyndar í alla staði óeðlilegt til lengri eða skemmri tíma. En a.m.k. er það mjög óeðlilegt til frambúðar að sjóður eins og Þróunarsjóðurinn, húseigandi í tveimur sveitarfélögum, sé undanþeginn fasteignagjöldum. Það er bara ekki í samræmi við þá hugsun sem fasteignagjöldin byggjast á og þess vegna er langsamlega eðlilegast eins og hér er verið að leggja til að þessi heimild sé afnumin og Þróunarsjóurinn, meðan hann eigi þessi hús, borgi sína skatta og skyldur eins og hver annar húseigandi.