Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 17:51:34 (4001)

2000-02-03 17:51:34# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. sé í húsinu, ég vil óska eftir að hann verði viðstaddur ræðu mína.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er í húsinu og forseti skal senda honum skilaboð.)

Herra forseti. Við ræðum nú síðasta mál á dagskrá í kippu fimm mála sem öll lúta að málefnum sjávarútvegsins. Mörg þeirra fjalla í raun og sanni um grundvallaratriði í þeim efnum, þ.e. um það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við á umliðnum áratug og rúmlega það, hátt á annan áratug. Það hefur vakið athygli mína að hér hafa ræðumenn annað slagið þakkað hæstv. sjútvrh. viðveru við þessa umræðu og ég tek undir þær þakkir. En það sem vekur sérstaka athygli mína er hins vegar þögn hans þegar kemur að þeirri umræðu sem hér á sér stað. Ekki að það komi mér sérstaklega á óvart að hæstv. ráðherra hafi lítið til málanna að leggja þegar sjávarútvegsmál eru annars vegar, því hann hóf feril sinn í ráðherraembætti með þeirri yfirlýsingu að hann vildi ekki hafa skoðanir á grundvallaratriðum í fiskveiðistjórnarmálum eða öðrum þáttum sjávarútvegsmála því þau væru á svo viðkvæmu stigi. Þau væru í tveimur nefndum sem framkvæmdarvaldið hefði skipað, raunar sjútvrh., annars vegar í auðlindanefndinni og hins vegar kvótanefndinni, og á meðan vildi hann ekki hafa skoðanir á málinu.

Þetta var ákaflega sérkennileg byrjun hjá nýjum ráðherra, en þetta var tillegg hans til umræðunnar um sjávarútvegsmál. Og hann bregður ekki út af þeim vana sínum við þessa umræðu um þau atriði sem rædd hafa verið í dag og ekki síst í því frv. sem hér er til umræðu.

Það sem vekur sérstaka athygli er að það eru flokksmenn hans sem bera þessi mál hér upp. Fyrst ber að telja hv. þm. Pétur H. Blöndal sem lagði fram tillögu til þál. um ekkert minna en þjóðnýtingu auðlindarinnar og síðan endurúthlutun hennar til allra íbúa landsins. Síðan bætist við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, raunar þingmaður Frjálslynda flokksins en fyrrum varaþingmaður Sjálfstfl., og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson með mál sem einnig fjallar um ákveðin grundvallaratriði og tæknileg útfærsluatriði í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Í þriðja lagi er hér á ferðinni athyglisvert frv. frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og Einari Oddi Kristjánssyni um skyldur Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og nú síðast eru það flokksbræður hæstv. ráðherra, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og Guðjón Guðmundsson, sem fara hér fram með mál sem er eins og fram kom í framsögu hv. frsm. Guðmundar Hallvarðssonar ekki nýtt af nálinni.

Það er tvennt sérstaklega athyglisvert í þessu sambandi. Annars vegar æpandi þögn hæstv. ráðherra sem hefur greinilega engar skoðanir á þessum málum, því það er alkunna að hér við þingstörfin koma ráðherrar gjarnan inn í umræðu með almennar ábendingar, athugasemdir og sitthvað sem að gagni mætti koma þegar sjútvn. eða aðrar nefndir þingsins fara yfir málin. Nei, ekki aukatekið orð. Ekki andvarp. Og það vekur athygli. Hitt er líka athyglisvert í þessu sambandi að þeir flokksbræður hæstv. ráðherra sem fara hér fram með þessi mál með góðum huga og af fullum þunga að ég hygg, og ég trúi því, skuli láta sér þetta lynda. Að þeir skuli sitja undir þessari afskiptasemi og þessari æpandi þögn hæstv. ráðherra. Hin hlið málsins er líka sú að þeir sömu flokksmenn, þeir sömu aðilar hafa þrátt fyrir allt tekið því fjarri þegar til kastanna hafa komið hugmyndir og tillögur um að gjörbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Það væri fróðlegt í því samhengi, af því ég er nú að reyna að færa þessi mál út á hið almenna pólitíska landakort, hvort svo sé komið að baklandið í Sjálfstfl., hinir almennu þingmenn hans átti sig á því þvert á það sem forusta flokksins talar fyrir, nú síðast í utandagskrárumræðu í upphafi þessa fundar, að ekki sé allt í lagi með þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. Og það þurfi meira en hefðbundnar plástranir á það heldur þurfi í raun grundvallarbreytingar á því. Það er að vísu alveg rétt að hæstv. ráðherra lagði til málanna í upphafi þingfundar í utandagskrárumræðu, þar sem hann spilaði sína gömlu plötu og sagðist ekki ætla að gera neitt, a.m.k. ekki þar til að hæstaréttardómur félli, og væntanlega þá um leið samkvæmt gömlu plötunni þar til að nefndirnar hefðu skilað af sér.

Herra forseti. Mér finnst ekki hægt að ljúka þessum fundi öðruvísi en að draga þennan kalda pólitíska veruleika hér fram. Hann er auðvitað himinhrópandi og kemur svo sem ekkert á óvart, en það er óhjákvæmilegt að draga þetta fram. Mér dettur ekki í hug, herra forseti, að þessi orðræða mín verði til þess að hæstv. ráðherra láti svo lítið að koma í þennan ræðustól og ræða efnislega það mál t.d. sem hér er til umræðu. Mér kemur það ekki í hug því það væri algjörlega úr fasa og engan veginn í stíl við framgöngu hans á þeim mánuðum sem hann hefur setið í stóli sjútvrh. Hann hefur ekki með öðrum orðum skilað neinum efnislegum atriðum inn í þá almennu sjávarútvegsumræðu sem alls staðar er á ferðinni í samfélaginu. Maður kemur ekki svo saman í hópi fleiri eða færri manna að þau mál séu ekki rædd. Sá einasti sem er stikkfrí frá því er hæstv. sjútvrh. Þrátt fyrir að þessir hv. þingmenn, flokksbræður hans, segi ekki margt um framgöngu ráðherrans, þá trúi ég því að þeim sé þungt fyrir og heitt í hamsi þegar kemur að þessari æpandi þögn. En svona er veruleikinn í dag, svona er Ísland í dag, svona er pólitíkin í dag, svona er ríkisstjórnin í dag, svona er hæstv. sjútvrh. í dag.