Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:00:54 (4003)

2000-02-03 18:00:54# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:00]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Samfylkingin og þeir flokkar sem að henni standa hafa lýst einum rómi stefnu sinni í sjávarútvegsmálum. Þeir hafa haft hið pólitíska markmið að gjörbreyta þessu fiskveiðistjórnarkerfi, eðli þess og þeim grunni sem það byggir á. Sú afstaða sem birtist í hæstaréttardómi frá fyrra ári og héraðsdómi á þessu ári, eru niðurstöður sem við spáðum fyrir löngu. Þar tölum við fullkomlega einum rómi. Þar þurfum við ekki að bera það sérstaklega á borð að það sýni aukna breidd er menn fara með mismunandi skoðanir upp í þennan ræðustól.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson undirstrikaði og staðfesti það sem ég sagði áðan, að ég hefði rétt fyrir mér. Það er augljóst að utan ráðherraliðsins í stjórnarflokkunum eru þingmenn sem átta sig á því og skynja af samtölum við landsmenn að svona getur þetta ekki gengið lengur. Þess vegna koma þeir upp hver á fætur öðrum í dag og raunar áður og lýsa yfir efasemdum sínum með ákveðna grundvallarþætti. En þeir eru þar með að slá ryki í augu kjósenda. Þegar til kastanna kemur standa þeir því miður bakvið þá ríkisstjórnarstefnu sem ráðherrar þeirra hafa fylgt og munu fylgja. Með öðrum orðum, þeir vilja ekki gera neinar grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er bara veruleiki þessa máls. Það getur vel verið að erfitt sé að una við hann en svona er það nú samt.

Samfylkingin mun á næstu dögum leggja fram tillögur og frv. sem gjörbylta munu þessu kerfi og taka á öllum þáttum þess. Hins vegar hafa þingmenn Samfylkingarinnar á yfirstandandi þingi flutt fjölmörg mál sem til bóta horfa og taka á ýmsum þáttum þessa máls. Þeir hafa langt í frá skilað auðu í þessari umræðu, ekki frekar en þeir gerðu í dag. Talsmenn hennar hafa ítrekað komið með efnislegar athugasemdir og yfirleitt tekið vel undir þau stefnumið sem fram hafa komið.