Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:04:53 (4005)

2000-02-03 18:04:53# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Við skulum ræða þessi mál eins og þau eru. Það er auðvitað lenska í þessum flokki sem kallar sig Sjálfstfl. að menn tala tungum tveimur. Það er yfirlýst í gegnum tvennar kosningar hið minnsta og væntanlega fleiri að þingmenn flokksins á Vestfjörðum hafa lýst sig andsnúna grundvallarþáttum kvótakerfisins. Í dag hafa verið fluttar ræður og tillögur í þá veru. Þær ganga einnig í berhögg við þann grundvöll sem kvótakerfið byggir á.

Herra forseti. Hér kemur hv. þm. og lýsir því sem sérstökum styrk Sjálfstfl. að hann geti haft margar skoðanir. Það getur vel verið. En ég vakti hins vegar athygli á því að lítið fer fyrir þeim köppum þegar til kastanna kemur. Hinar stóru ákvarðanir eru teknar samkvæmt forskrift hæstv. ráðherra, forvera hans og ríkisstjórnarinnar í heild. Það er kjarni málsins. En það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að Sjálfstfl. hefur komist upp með þetta árum og áratugum saman að tala fleiri tungum en einni eða tveimur og orðað eins og hver vill heyra, andað upp í eyrun á fólki eftir því sem hentar. Það er auðvitað kominn tími til að afhjúpa það og kannski við okkur að sakast, andstæðinga flokksins, að hann skuli komast upp með þetta ár eftir ár, kosningar eftir kosningar.

Ekki síst þess vegna er ég hér kominn og vek athygli á því að hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni þykir ekkert athugavert að hæstv. ráðherra hans sitji hér þegjandi undir mikilvægri umræðu um sjávarútvegsmál daglangt án þess að leggja neitt til málanna. Mér finnst máttur manna ekki mikill þegar þeir meira að segja þola ráðherrum sínum það. Ég er hins vegar hér sem almennur þingmaður eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, og kalla eftir að sá sem fer með málefni sjávarútvegsmála í þessari ríkisstjórn leggi í umræðuna efnisleg atriði. Ég árétta ósk mína um það.