Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:33:16 (4009)

2000-02-03 18:33:16# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:33]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Já, ég trúi því að þetta kerfi standi áfram að verulegu leyti og ég tel reyndar að það sé mjög margt ágætt við þetta fiskveiðistjórnarkerfi. Auðvitað verðum við að hafa stjórn á fiskveiðunum. Það er ekkert sem heitir. Höfuðágreiningurinn er ekki um það hvort við eigum að stjórna veiðunum eða ekki. Hann er hins vegar um eignarhaldið og hvernig með það er farið.

Ég er ekki hræddur um að allar útgerðir í landinu fari undir einn allsherjarhatt þó að þetta frv. næði fram að ganga og treysti sjútvn. þingsins vel til að ganga þannig frá málum að menn geti ekki svindlað neitt á þessu. Ég minni á að allir þessir ágætu umsagnaraðilar, Sjómannasambandið, Farmanna- og fiskimannasambandið, Vélstjórafélag Íslands og Alþýðusambands Vestfjarða mæltu mjög eindregið með þessu frv. og enginn þeirra sá ástæðu til að óttast þetta.