Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:38:25 (4012)

2000-02-03 18:38:25# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:38]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. taldi sig hafa komið við auman blett á mér. Ég kannast ekkert við það. Ég er algerlega óaumur eftir þessa ræðu hans. Hins vegar átti hann alla samúð mína fyrir að halda hér langa ræðu án þess að koma einu einasta orði að málinu sem var á dagskrá og ef það er hans háttur þá verður hann að hafa sína aðferð við það.

Hann talar um að við tölum tungum tveim. Ég mótmæli því algjörlega. Ég vil bara biðja hv. þm., af því að ég veit að hann er sannleiksunnandi maður og vill hafa það sem sannara reynist, að fletta upp og lesa ræður mínar um sjávarútvegsmál síðan ég kom á þing. Í þeim er ekki talað tungum tveim. Ég hef haft mjög skýrar skoðanir á þessum málum sem ég hef sett fram aftur og aftur á hverju einasta ári á Alþingi. Því er auðvitað ekki þannig farið því miður að allir þingmenn flokksins hafi verið mér sammála. Ég held að við værum í betri málum í dag ef svo væri.

Hv. þm. talaði um að stefna Samfylkingarinnar væri ákaflega skýr. Það er þá eina málið sem þessi ágæta Samfylking er með skýra stefnu í. Ég hef reyndar ekki séð skýrleikann í henni að öðru leyti en því, eins og hann nefndi, að setja afnotagjald á útveginn, setja afnotagjald, nýjan skatt á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Halda menn virkilega að það sé það sem við þurfum? Halda menn virkilega að allar þær útgerðir vítt og breitt um landið sem vinna eftir þessu kerfi --- við skulum ekki gleyma því að stærstur hluti útvegsmanna á Íslandi og útgerða vinnur eftir þessu kerfi án þess að vera að braska og bulla --- að slík fyrirtæki hefðu gott af því að fá á sig allt í einu nýjan skatt? Þetta er bara eins og hvert annað rugl. Af því að mér er hlýtt til hv. þm. og veit að hann er á leið í formannskjör í Samfylkingunni þá ætla ég rétt að vona að hann taki sér nú tak og tali aðeins skýrar en hann hefur gert í þessu máli og af meira viti.