Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:40:24 (4013)

2000-02-03 18:40:24# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:40]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð. En hvað efnisatriði málsins varðar, ber að skilja það svo að hv. þm. og flutningsmenn þessa máls líti ekki á þau verðmæti sem skipta um hendur í viðskiptum með aflaheimildir á ári hverju séu ekki ígildi skatts fyrir greinina og fyrir þá sem í henni vinna? Hv. þm. sagði sjálfur að þeir peningar sem skiptu um hendur þegar verið væri að versla með aflaheimildir skiptu milljörðum. Áttar hv. þm. sig ekki á því að þar er um ígildi skattþyngingar að ræða fyrir greinina sjálfa? Eða er það kannski bara bannað að þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fái þetta í sínar hendur? Er það sem er kjarni málsins? Nei, ég hafði einmitt skilið það í málflutningi hv. þm. og þeirra tveggja sem hér fara fram með málið að þeir vildu breyta þessu. En við viljum ganga skrefinu lengra og teljum eðlilegt að eigandi auðlindarinnar fái eitthvað í sinn hlut sem og mætir þeirri kröfu Hæstaréttar og dómsvaldsins í þessu landi að þetta varanlega framsal auðlinda í eigu þjóðarinnar gangi ekki. Það er kjarni málsins. Og billegir útúrsnúningar eins og að afnotagjald og leigugjald fyrir aflahlutdeild sé skattur á landsbyggðina er eins og hvert annað kjaftæði og hreinn útúrsnúningur. Það veit hv. þm.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Samfylkingin og forverar hennar, Alþb. og Alþfl., hafa farið fram með rauðan þráð í þessum málum. Ég kem frá Alþfl. Kollegi minn í Samfylkingunni, Jóhann Ársælsson, var á hinu háa Alþingi sem þingmaður Alþb. Við höfum talað mjög í sömu veru í þessum málum þannig að það eru bara billegir útúrsnúningar og ekki samboðnir jafnágætum þingmanni og hv. þm. Guðjón Guðmundsson er að vera með málflutning af þessum toga því ég vil taka hann alvarlega og ætla að gera það áfram þrátt fyrir allt.