Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:42:35 (4014)

2000-02-03 18:42:35# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvort ég líti ekki á kvótabraskið sem ígildi skatts eins og það er framkvæmt í dag. Auðvitað er það skattur en það er bara skattur á þá sem vilja taka þátt í því. Ég var að reyna að segja það í mínu fyrra andsvari (Gripið fram í.) að stærstur hluti útgerðana á Íslandi tekur ekki þátt í þessu bölvaða braski en með tillögum Samfylkingarinnar á að skattleggja öll þau ágætu fyrirtæki sem vinna af heiðarleika og festu í þessu kerfi í dag.

Ég er einfaldlega (Gripið fram í.) ósammála því, hv. þm. Það er enginn skattur á þessum fyrirtækjum í dag. Það er auðvitað ákveðinn skattur á þeim sem eru að kaupa kvóta og skuldsetja sig fyrir hann eins og ég gat um í ræðu minni áðan. En stærstur hluti útgerðarinnar á Íslandi tekur ekki þátt í því. (GÁS: Koma þeir peningar af himnum ofan?)

Hv. þm. sagði að það væri bara bull og útúrsnúningar sem ég hefði sagt, þ.e. að þetta væri skattur á landsbyggðina. Ég nefndi það ekki einu orði. En fyrst hann nefnir það þá skal ég taka undir það. Auðvitað er þetta skattur á landsbyggðina. Hvar haldið þið að þær lendi þyngst þessar skattatillögur Samfylkingarinnar ef þær verða að veruleika einhvern tíma, sem þær verða vonandi aldrei? Auðvitað á landsbyggðinni sem síst af öllu má við því.

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það að þessi hv. þm. sem er á leið í formannsslaginn í Samfylkingunni verður að tala öðruvísi en svona. Menn verða ekki formenn í stjórnmálaflokki með einhverju kersknishjali og Hafnarfjarðarbröndurum. Það er alveg sama þó að við séum fáir hér í dag. Þetta spyrst út. Ég vil hv. þm. það vel að ég vona að hann hagi málflutningi sínum með öðrum hætti fram að formannskjörinu í apríl. (GHall: Að hann sigri í formannskjörinu.)