Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 18:53:06 (4018)

2000-02-03 18:53:06# 125. lþ. 56.5 fundur 249. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[18:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst verð ég að þakka hæstv. ráðherra á nýjan leik að honum skuli hafa þótt ástæða til að gera athugasemdir við endursögn mína á ræðu hans. Það ber þá að festa hér í þingbækur að þetta er afstaða hans til þeirra verkefna sem fram undan eru.

Hæstv. ráðherra kallar hér eftir afstöðu minni og Samfylkingarinnar til grundvallaratriða í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég vísaði til þess að hér hafa komið fram frv. hjá aðildarflokkum Samfylkingarinnar um þau efni, fleiri en eitt, fleiri en tvö og fleiri en þrjú og ég vísa til þeirra. Að öðru leyti vil ég segja um það atriði af því hann spyr sérstaklega um framsalið og framleiguna að ég tel ekki unnt að taka á því máli einu, algjörlega óháð öðrum. Ég sagði frá því áðan að þingflokkur Samfylkingarinnar er að undirbúa heildstæða löggjöf í þeim efnum sem tekur á þessum þáttum heildstætt. Það er á dagskrá að staða greinarinnar er sérstaklega skoðuð, það að eigandi auðlindarinnar fái afraksturinn í auknum mæli til sín en í minna mæli þeir sem eru að gera viðskipti sín á milli og í minnstum mæli þeir sem eru að fara út úr greininni með stórkostlegum gróða og greinin sjálf þarf að setja sig í miklar skuldir til þess að greiða fyrir þær heimildir. Við erum líka með sérstaka athygli og sýn á hinar dreifðari byggðir og sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið. Ef einhverjir aurar fást inn með þeim hætti þá verður þeim auðvitað beint heim í hérað aftur. Við ætlum að taka á þeim málum heildstætt og erum á lokasprettinum. Og ég bið hæstv. ráðherra að leggja eyrum við og athyglina þegar að því kemur, það verður engin hefðbundin plástrun sem þar verður á ferðinni. Og þar verður engu skotið undir teppið í einhverjar nefndir hér eða þar eða alls staðar.