Löggæsla í Grindavík

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:15:15 (4040)

2000-02-07 15:15:15# 125. lþ. 57.2 fundur 281#B löggæsla í Grindavík# (óundirbúin fsp.), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Í kosningabaráttunni lögðu stjórnarflokkarnir mikla áherslu á eflingu löggæslu í landinu og nauðsyn þess að takast á við hinn stóra fíkniefnavanda. Nú berast fréttir af því í blöðum og fjölmiðlum að það séu áform af hálfu dómsmrn. að skera niður eða a.m.k. breyta um áherslur varðandi löggæslu í einum af stóru kaupstöðunum á Suðurnesjum, Grindavík. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að þingheimur sé upplýstur um hver áform ráðuneytisins eru varðandi framtíð löggæslu í Grindavík.

Í öðru lagi spyr ég hvort það samrýmist stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka og bæta löggæslu að vera með bollaleggingar ef þær eru fyrir hendi um að draga úr löggæslu í stað þess að efla hana eins og fyrirheit hafa verið gefin um.