Löggæsla í Grindavík

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:16:31 (4041)

2000-02-07 15:16:31# 125. lþ. 57.2 fundur 281#B löggæsla í Grindavík# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn vegna þess að ég var einmitt á mjög fjölmennum fundi í Grindavík fyrir nokkrum dögum þar sem þessi mál voru rædd. Bæjarstjórnin hafði komið þeim skilaboðum á framfæri við mig að þeir óskuðu eftir að koma á fund í dómsmrn. og ræða þessi mál þar sem sýslumaðurinn hygðist leggja til breytingu á löggæslumálum í bænum. Það varð úr að ég kallaði til bæjarstjóra og allt bæjarráðið á fund í dómsmrn. sl. mánudag og eins líka ríkislögreglustjóra og sýslumanninn í Keflavík. Þar voru tillögurnar ræddar og kynntar fyrir Grindvíkingum. Ég tel að það hafi verið mjög gott mál vegna þess að þarna skorti e.t.v. nokkuð á að menn hefðu rætt saman.

Sýslumaðurinn fól sérstökum starfshópi að fara yfir það hvernig löggæslumálum yrði best háttað í umdæminu og þeir gerðu ákveðnar tillögur. Ákveðið vandamál hafði falist í því að lögregluliðið hefði verið eins og tvískipt, rekið annars vegar frá Keflavík og hins vegar frá Grindavík, með þeim afleiðingum að það hafa borist kvartanir frá ýmsum öðrum stöðum í umdæminu sem telja að þeim hafi ekki verið nægilega vel sinnt. Þess vegna taldi sýslumaðurinn ástæðu til að leggja fram tillögu til breytinga í þeim tilgangi að bæta löggæsluna í umdæminu. Lögreglustöðin sem hefur verið þarna á staðnum verður áfram. Engin áform eru um að hætta að nota hana eða selja og forvarnafulltrúinn eða aðstoðaryfirlögregluþjónn sem þarna hefur verið að störfum verður þar líka áfram að störfum. Gert er ráð fyrir að sólarhringsvöktum verði komið upp alls staðar í umdæminu þannig að ég tel eftir að hafa séð þessar tillögur og eftir að ríkislögreglustjóri hefur farið yfir þær og mælt með þeim að hér sé á ferðinni bætt þjónusta í löggæslu.