Löggæsla í Grindavík

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:22:33 (4045)

2000-02-07 15:22:33# 125. lþ. 57.2 fundur 281#B löggæsla í Grindavík# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég gleymdi áðan að svara því til sem var spurt um að þessar tillögur eru ekki viðkomandi þeim fjárhagsáætlunum sem gerðar hafa verið þannig að það er ekki verið að draga úr fjárframlögum til sýslumannsins í Keflavík, svo það komi skýrt fram, heldur er þar líklega eitt hæsta hlutfall á kostnaði sem á sér stað við rekstur á þessu lögregluembætti.

Ég vil líka taka það fram að grenndargæsla felst ekkert endilega í því að það sé lögreglustöð á staðnum þó það sé auðvitað mjög ákjósanlegt að þar starfi menn sem þekkja vel til heldur er það svo að það hefur gefist vel t.d. á höfuðborgarsvæðinu að tveir menn í bíl hafi fylgt eftir t.d. í foreldraröltinu og í ýmsum hverfum í borginni hafa verið gerðar tilraunir með það fyrirkomulag og það hefur gefið góða raun.

Ég vil líka taka skýrt fram, herra forseti, að dómsmrn. hefur gert árangursstjórnunarsamninga við öll sýslumannsembætti á landinu og auðvitað bera sýslumenn ábyrgð á rekstri embætta sinna þar með.