Öryggismál á hálendi Íslands

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:24:04 (4046)

2000-02-07 15:24:04# 125. lþ. 57.2 fundur 282#B öryggismál á hálendi Íslands# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. dómsmrh. hvernig sé háttað öryggi landvarða vítt um landið þar sem þeir starfa. Starf landvarða er mjög mikilvægt við vörslu og fræðslu um umgengni á hálendinu og margar náttúruperlur. Eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um eru landverðir starfandi á einum tíu svæðum og þar af eru tveir þjóðgarðar. Í sumum af þeim svæðum, herra forseti, starfar bara landvörðurinn einn, það er einmenningsstarf. Þetta er jafnvel inni á hálendinu þar sem er umferð fólks, gangandi og akandi. Orðrómur er um að ekki sé farið að ýtrustu landslögum varðandi ákveðinn hluta af þessari umferð, hún sé bæði utan vega og á vegaslóðum til lítils sóma. Jafnvel heyrist sá orðrómur að þeir sem þar fara um séu kannski ekki í ökuhæfu ástandi. Ég hef heyrt þær sögur frá sumum landvörðum sem sinna þessum störfum að þeir séu sjálfir jafnvel í hættu við að umgangast þetta fólk.

Það er ekki aðeins það að fólk starfi aleitt inni á óbyggðum heldur er það líka öryggið gagnvart því verkefni sem landverðir hafa að vernda náttúruna, auk þess líka að þurfa að umgangast fólk sem þeir eru í rauninni ekki færir um. Þeir hafa í rauninni enga heimild til að starfa þarna sem neinir löggæslumenn en það verður hlutverk þeirra í allt of mörgum tilvikum og öryggi þeirra er þar af leiðandi stefnt í hættu.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort þetta sé svo, hvaða öryggi þeir búi við og hvort úrbætur séu væntanlegar fyrir sumarið.