Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 15:53:55 (4053)

2000-02-07 15:53:55# 125. lþ. 57.8 fundur 258. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 55/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er árviss viðburður að við fáum inn í þingið breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Oftar en ekki eru þar hækkuð ýmis gjöld á einstaklinga, ekki síst fasteignaeigendur og þá sem eru í miklum vanskilum, með hækkun á dómsmálagjöldum. Svo er þó ekki nú sem betur fer heldur eru þetta minni háttar breytingar eins og hæstv. ráðherra hefur upplýst og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir farið yfir. Því er ekki gert ráð fyrir að þetta skili miklum tekjum í ríkissjóð.

Engu að síður gefur þetta frv. tilefni til að ræða skilgreiningu á skatti og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom hér inn á. Auðvitað er það að gefnu tilefni, ekki síst í ljósi svara á þessu þingi við fyrirspurnum frá þingmönnum Samfylkingarinnar, annars vegar frá Jóhanni Ársælssyni og hins vegar Guðmundi Árna Stefánssyni. Þar er spurt út í þessa gjaldtöku og aukatekjur ríkissjóðs.

Í ljósi þess að hæstv. fjmrh. tilheyrir þeim flokki, Sjálfstfl., sem gefur sig út fyrir að vilja ekki hækka skatta á fólk en talar meira fyrir því að setja á alls konar þjónustugjöld er mikil ástæða til að fá frekari upplýsingar um þetta mál. Ég hef grun um, eins og mér fannst hv. þm. Margrét Frímannsdóttir einnig koma inn á, að þessi þjónustugjöld og þá aukatekjur ríkissjóðs séu dulin skattheimta að mörgu leyti. Ég tel mörg dæmi um það og ég skal nefna nokkur hér á eftir, dæmi um að þessi gjaldtaka gefur miklu meira en nemur kostnaði við veitta þjónustu. Mér finnst ærið tilefni til þess, herra forseti, að fara nokkuð inn á það við þessa umræðu.

Í fyrsta lagi var þál. sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi hér áðan, um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana, samþykkt sem ályktun Alþingis 8. maí 1993. Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði fjmrh. ákveðinna spurninga varðandi þetta frv. og þá niðurstöðu sem þar var. Þær tengjast þessum aukatekjum og gjaldtöku ríkissjóðs. Mér finnast svör hæstv. fjmrh. við þessum fyrirspurnum frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni mjög athyglisverð. Hv. þm. spyr t.d.:

,,Hefur það markmið sem lýst er í þingsályktuninni, þ.e. ,,að gerður verði skýr greinar munur á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu hjá hinu opinbera`` náðst?``

Hæstv. ráðherra svarar:

,,Í ráðuneytinu hefur farið fram skipulögð endurskoðun á skatta- og gjaldtökuákvæðum sem eru á valdsviði þess. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að slíkt verði einnig gert í öðrum ráðuneytum. Hefur ráðuneytið í því sambandi fylgst sérstaklega með því að lagafrumvörp sem lögð eru fyrir þingið uppfylli þau skilyrði sem gilda um innheimtu skatta og þjónustugjalda.``

Síðan spyr hv. þm. áfram:

,,Hefur það markmið náðst sem lýst er í þingsályktuninni að þjónustugjöld sem innheimt eru hjá hinu opinbera skuli aldrei vera hærri en sá kostnaður sem af þjónustunni hlýst?``

Þá svarar hæstv. ráðherra:

,,Gjöld eru tekin fyrir opinbera þjónustu af ýmsu tagi. Með þjónustugjaldi er átt við að sérgreint endurgjald fæst gegn greiðslu gjaldsins og miðast það við þann kostnað sem hlýst af því að veita þjónustuna eða hluta kostnaðarins. Þetta þýðir að með gjaldtökunni má ekki afla tekna umfram það sem starfsemin eða þjónustan kostar. Gjaldtakan má með öðrum orðum ekki byggjast á skattalegum sjónarmiðum um almenna tekjuöflun ríkisins.``

Fjórða spurningin er: ,,Gera opinberar stofnanir skýra grein fyrir því við innheimtu hver kostnaðurinn við viðkomandi þjónustu er og hversu hár ,,skattur`` er innheimtur umfram þjónustuna, sé um slíkt að ræða, eins og fyrir er lagt í ályktun Alþingis?``

Þá er svarið mjög skýrt og það kemur fram í lokin:

,,Ef gjald reynist vera hærra en nemur kostnaði sem af þjónustu leiðir kann það að kalla á endurgreiðsluskyldu ríkissjóðs á grundvelli laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995.``

Mér finnast þessi svör mjög athyglisverð og spyr hæstv. ráðherra með vísan í þessi svör hvort farið hafi verið yfir allar aukatekjur ríkissjóðs sem innheimtar eru samkvæmt þeim lögum og athugað hvort þær uppfylli þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra setur fram í þessu athyglisverða svari við fsp. Jóhanns Ársælssonar.

Ég vil nefna tvö dæmi sem að mínu viti sýna að ekki er farið eftir því sem hæstv. ráðherra setur skilmerkilega fram í svari sínu til hv. þm. Jóhanns Ársælssonar.

Hér liggur fyrir annað svar, svar dómsmrh. við fyrirspurn Guðmundar Árna Stefánssonar um gjald fyrir ökupróf, ökuskírteini og vegabréf. Það er sett fram á yfirstandandi þingi. Þar kemur annars vegar fram hvaða tekjur ríkissjóður hefur af ökuskírteinum og hins vegar hver séu bein útgjöld ríkissjóðs af útgáfu ökuskírteina. Síðan eru upplýsingar um heildartekjur ríkissjóðs af vegabréfum og hver kostnaðurinn er við útgáfuna á þessum vegabréfum. Þar kemur fram að tekjur ríkissjóðs vegna ökuskírteina eru 65.950.000 kr. en að útgjöld ríkissjóðs séu 15 millj. rúmar. Mismunurinn á 65 og 15 millj. eru 50 millj. sem ég sé ekki annað en sé bein skattheimta sem ríkið fær í ríkiskassann.

Þarna virðist ekki innheimt með aukatekjum nákvæmlega fyrir kostnaði af útgáfu ökuskírteina heldur hefur ríkissjóður þarna, með meiri skattlagningu en þarf vegna útlagðs kostnaðar, ákveðnar tekjur í ríkissjóð. Þetta er ekki annað en dulin skattlagning. Þetta skyldu menn hafa í huga þegar talað er um að Sjálfstfl. sé á móti því að hækka skatta á fólk en fylgjandi þjónustugjöldum. Hvernig er farið að því? Það er eins og ég lýsti, með dulinni skattheimtu.

Sama gildir um vegabréfin í þessu svari. Heildartekjur ríkissjóðs af útgáfu vegabréfa eru um 121 millj. kr. en útgjöldin vegna útgáfu þeirra eru um 55 millj. kr. Við erum því að tala um mismun um meira en helming sem ríkisstjórnin virðist taka í ríkissjóð með aukatekjum.

Þetta kom reyndar fram í allshn., að ég held í fyrra. Þá spurðum við sérstaklega um þetta í tengslum við yfirferð allshn. á kafla sem sneri að dómsmrn. varðandi vegabréf og ökuskírteini. Þá kom fram að kostnaður við gerð vegabréfa var 351 kr. á hvert vegabréf en fyrir það þarf fólk hins vegar að borga 4.600 kr. Ríkið hefur því tekjur af vegabréfum þannig að þarna á sér stað gífurleg skattheimta í gegnum aukatekjur ríkissjóðs og svokölluð þjónustugjöld. Ég held að það sé afar mikilvægt að fá fram það svar sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kallaði hér eftir.

Hið sama gildir um ökuskírteinin. Hér stendur að kostnaður við gerð hvers ökuskírteinis sé 564 kr. en að útgefið ökuskírteini kosti almennt 3.000 kr. Þarna er verið að taka inn í ríkissjóð, bæði í gegnum vegabréfin og ökuskírteini margfalt meira, fimmfalt meira heldur en sem nemur kostnaði í kringum útgáfuna á vegabréfum og ökuskírteinum. Þessu finnst mér mikilvægt að halda til haga og spyr ráðherra að gefnu tilefni um þessi atriði. Mér finnst svarið sem hv. þm. Jóhann Ársælsson fékk mjög skilmerkilegt og spyr því hvort farið hafi verið í saumana á þessum þjónustugjöldum í ráðuneytinu og hvort þau standist lög um aukatekjur ríkissjóðs. Stenst þessi gjaldtaka þau sjónarmið og grundvallaratriði sem ég er sammála og fram koma í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar?

Í lokin, herra forseti, af því að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi hér stimpilgjöldin. Þau er mjög mikilvægt að ræða hér af því að stimpilgjöld eru mikil útgjöld fyrir einstaklinga sem standa í íbúðakaupum. Ríkissjóður hefur gífurlegar tekjur af þeim, 2,7 eða 2,8 milljarða á þessu ári. Mikið af því eru stimpilgjöld vegna íbúðakaupa. Ég er alveg sannfærð um að ef sú gjaldtaka yrði grannt skoðuð þá kemur örugglega miklu meira inn í ríkissjóð en það sem fer í kostnað vegna stimpilgjalda.

Ég tek undir þessa spurningu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um hvort fyrir dyrum standi endurskoðun á lögum um stimpilgjöld. Ég held að tvö til þrjú ár séu síðan lagt var fyrir frv. varðandi það efni. Ég er ekki alveg klár í áherslunum þar en ég held að það hafi gert ráð fyrir einföldun og samræmingu á þessari gjaldtöku sem er mjög þungbær fyrir t.d. íbúðarkaupendur.

Fleira mætti nefna í þessum lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem snertir einstaklinga í miklum vanskilum o.s.frv., varðandi fjárnám og nauðungarsölu sem iðulega er farið í að hækka þegar ríkissjóður þarf á tekjum að halda. Það er örugglega grundvallarspurning sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lagði fyrir hæstv. ráðherra um hvort ekki væri full ástæða til að endurskoða frá grunni þessi lög um aukatekjur ríkissjóðs.

En fyrirspurnir mínar til hæstv. fjmrh. eru skýrar og ég vona að hann svari þeim við þessa umræðu.