Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 16:18:34 (4055)

2000-02-07 16:18:34# 125. lþ. 57.8 fundur 258. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 55/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[16:18]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir það sjónarmið hans að þetta frv. eins og það er eða markmið þess er mjög gott. Það er liður í því að afnema þær víðtæku heimildir sem ráðherrar hafa haft og þeim hafa verið afhentar samkvæmt lögum til að ákveða slík gjöld eða skatta og kominn tími til að fjárveitingavaldið sé þar sem það á heima samkvæmt stjórnarskránni. Undir þau orð tek ég.

Hins vegar hlýt ég að segja að það er afar einkennileg flokkun sem liggur að baki frv. hvað varðar aukatekjur ríkissjóðs. Ég á t.d. erfitt með að sjá, virðulegi forseti, að sami flokkur eða sömu forsendur liggi á bak við ákvörðun á leyfisveitingu eða skírteinisveitingu, t.d. til almennra lækninga, sérfræðilækninga og svo aftur þegar komið er aftar í þessa upptalningu þar sem eru þessi svokölluðu naglabyssuskírteini eða skírteini fyrir suðumenn, að þessi leyfi eigi heima í sama flokki þó að um atvinnutengd leyfi eða atvinnutengd skírteini sé að ræða. Því að sannarlega er um atvinnutengd skírteini eða leyfi að ræða í 3. gr. þar sem leyfi er til reksturs t.d. skotvopnaleigu, það er atvinnustarfsemi, og í 2. gr. þar sem fara saman öll leyfisbréf fyrir lánastofnanir og rannsóknastarfsemi. Síðan kemur allt í einu þar á eftir skemmtanaleyfi vegna einstakra tilvika, 5.000 kr., leyfi til reksturs miðlunar með leiguhúsnæði, 5.000 kr., leyfi til að reka skyndihappdrætti, 5.000 kr., leyfi til reksturs ferðaskrifstofu til tveggja ára, 5.000 og til 5 ára, 5.000 kr.

Ég held, virðulegi forseti, að mikil nauðsyn sé á að fara yfir alla þessa þætti þó að þetta hafi verið sett fram og flokkað með svipuðum hætti núna og gert hefur verið undanfarið ár. Það er mikil nauðsyn á að taka upp alla þætti sem falla undir þessi lög um aukatekjur ríkissjóðs, flokka upp á nýtt og endurmeta þær forsendur sem liggja að baki ákvörðun um gjaldtöku fyrir hvert og eitt, enda sést að töluverður munur er á þeim nýju töluliðum sem koma inn í 2. gr. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort það sé eðlilegt að skemmtanalífið vegna einstakra tilvika kosti 5.000 kr. en síðan sé leyfi til að reka miðlun á leiguhúsnæði allt árið það sama, 5.000 kr. gjald. Það þarf að skoða hvort kostnaðurinn á bak við eða sú vinna sem á sér stað við að skoða þá sem sækja um leyfi hverju sinni sé nákvæmlega sú sama, og hvort jafnmikil vinna liggur að baki því að sá einstaklingur sem sækir um þetta margumrædda naglabyssuskírteini hljóti sömu skoðun og að sömu kröfur séu gerðar til hans og annarra sem taldir eru upp fyrr í 1. gr., eins og þeir sem hafa leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti og héraðsdómi. Ég held því að það þurfi fara í endurskoðun á allri þessari flokkun.

Þetta er ekki bara spurning um hvort hér sé um réttar tölur að ræða, sem ég dreg sannarlega í efa, heldur einnig hvort flokkunin sé rétt en markmiðið er gott að ákvörðunarvaldið sé hjá Alþingi hvað varðar álagningu gjalda og skatta. Ég tek undir það markmið. Ég tek einnig undir þá gagnrýni sem komið hefur fram sérstaklega á þá reglugerð sem sett var 1989 og skoðuð var af umboðsmanni Alþingis og hann skilaði ítarlegri greinargerð um. En mér sýnist þurfa, þó að það verði kannski ekki gert núna, ég ætla ekki að hóta því að efh.- og viðskn. fari í heildarendurskoðun á þessari flokkun núna, enda er kannski eðlilegt að kalla eftir tillögum frá ráðuneytinu í þeim efnum og horft verði þá til þess næst þegar slíkt frv. verður lagt fram af hálfu hæstv. ráðherra.

Ég vil líka, virðulegi forseti, taka undir að það er mjög nauðsynlegt að fara í heildarendurskoðun á lögunum um stimpilgjöldin. Það frv. sem lagt var fram fyrir þremur árum var vissulega gallað og hefði verið ástæða til þess fyrir hv. efh.- og viðskn. og hv. þingmenn að skoða það frv. vel og leggja í það vinnu að skoða hvernig stimpilgjöldin sem sannarlega skila miklum tekjum í ríkissjóð en eru bara skattlagning á þá sem taka lán og það bitnar mjög illa á t.d. smærri fyrirtækjum og einstaklingum. Það þarf að fara í endurskoðun á öllum þessum þáttum og ekki bara af hálfu ráðuneytis heldur og ekki síður af hálfu þingmanna og t.d. efh.- og viðskn. Það vill nú svo til að ég hef nefnt það við formann efh.- og viðskn. og hann hefur tekið vel í að nefndin fari í þá vinnu en hún er töluverð. Stimpilgjöld eiga sér langa forsögu hér sem og annars staðar því að þetta er eins í þeim löndum sem við miðum okkur gjarnan við, að þar er lagt á stimpilgjald eða ígildi þess, þó undir mismunandi nöfnum. En það er mikil nauðsyn og ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji láta skoða þennan gjaldflokk og við verðum auðvitað að skoða þær tekjur sem þetta skilar ríkinu en það yrði þá kannski um leið, virðulegi forseti, farið í heildarendurskoðun á útgjöldum ríkisins, þau endurskipulögð meira í takt við þarfir nútímans en ekki að byggja þar á áratugagömlum hefðum á framlögum í einstök verkefni sem ekki eiga lengur heima hjá ríkinu en þar eru jafnvel að bætast við verkefni, eins og sjást dæmi um á fjárlögum fyrir þetta ár, sem vandséð er að sé endilega hlutverk ríkisins í breyttu samfélagi að sinna.