Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 16:25:38 (4056)

2000-02-07 16:25:38# 125. lþ. 57.8 fundur 258. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 55/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er hægt að vera sammála um ýmislegt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að útfæra á gjaldtökuheimildir á þann hátt að þær standist stjórnarskrána og ég er alveg sammála honum um að á nokkrum umliðnum árum hafa orðið endurbætur að því er varðar ákvæðin um aukatekjur ríkissjóðs.

Aftur á móti fannst mér hæstv. ráðherra skauta mjög létt fram hjá þeim spurningum sem voru þó kjarnaatriði sem ég beindi til hans og snerta þá ályktun sem Alþingi samþykkti á árinu 1993 og það svar sem hæstv. ráðherra gaf hv. þm. Jóhanni Ársælssyni á þessu þingi. Mér finnst að þar fari ekki saman það svar sem hæstv. ráðherra gaf hv. þm., sem er mjög afdráttarlaust, um að ekki eigi að innheimta og ekki megi innheimta meira fyrir þjónustuna en sem nemur kostnaði við hana og meira að segja er gengið svo langt í svarinu að talað er um að ef gjald reynist vera hærra en kostnaðurinn sem af þjónustunni leiðir kunni það að kalla á endurgreiðsluskyldu ríkissjóðs á grundvelli laga um endurgreiðslu oftekinna skatta. Þegar litið er til þess sem ég sagði bæði varðandi ökuskírteinin og vegabréfin, þá hefur ríkissjóður innheimt margfalt meira af fólki vegna ökuskírteina og vegabréfa en sem nemur kostnaðinum þannig að skiptir tugum milljóna. Ég get ekki dregið aðra ályktun af svari ráðherrans við fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar en þá að fólk eigi bara inni töluverðar tekjur hjá ríkissjóði miðað við þetta og þarna hafi verið verulega oftekið í sambandi við vegabréfin og ökuskírteinin og sennilega marga fleiri þætti. Ég held því að nauðsynlegt sé með tilliti til þessa að efh.- og viðskn. fari mjög ofan í saumana á þessu máli í tengslum við þetta frv., í raun og sannleika ber henni skylda til þess.

Ég vil nefna, herra forseti, og ég vona að hæstv. ráðherra hlusti á mál mitt að þegar þessi þál. var samþykkt, um aukatekjur ríkissjóðs, á árinu 1993, þá stóðu allir í efh.- og viðskn. að þessari tillögu og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana.

Markmið endurskoðunarinnar verði að gera skýran greinarmun á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem hið opinbera ákveður að innheimta. Skal við það miðað að þjónustugjöld, sem eru innheimt vegna tiltekinnar þjónustu, skuli vera metin sem hlutdeild í þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.`` --- Þetta er mjög skýrt og síðan stendur:

,,Ákveði hið opinbera að skattleggja tiltekna þjónustu skal koma skýrt fram við innheimtu hve hár skatturinn er, við hvaða stjórnvaldsákvarðanir er stuðst og hvernig útreikningi er háttað.``

Þetta kemur fram í þáltill. og þar er verið að tala um m.a. þinglýsingar og stimpilgjöld sem eru ekkert undanþegin í þessari ályktun. Til að greiða fyrir umræðunni í efh.- og viðskn. sem við sannarlega munum taka um þetta efni þar, þá vil ég gjarnan fá fram álit hæstv. ráðherra á því hvort hann telji ekki að verið sé að taka meira í ýmsa gjaldtöku varðandi aukatekjurnar --- ég hef nefnt ökuskírteinin, vegabréfin og stimpilgjöldin --- en ríkissjóði er í raun og sanni heimilt eða a.m.k. að það stangist á við það sem fram kemur í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar sem er mjög skýr um það, eins og segir, með leyfi forseta:

[16:30]

,,Þetta þýðir að með gjaldtökunni má ekki afla tekna umfram það sem starfsemin eða þjónustan kostar. Gjaldtakan má með öðrum orðum ekki byggjast á skattalegum sjónarmiðum um almenna tekjuöflun ríkisins.``

Mér fannst ráðherrann ekki gefa nægilega skýr svör við þessu og þess vegna hlýt ég að endurtaka spurningar mínar um leið og ég spyr hæstv. ráðherra að því --- ég er honum auðvitað sammála um að á einni nóttu verður ekki kippt burt þremur milljörðum sem ríkissjóður hefur í tekjur af stimpilgjöldum. En mun verða lagt fram á þessu þingi frv. til laga um breytingu á stimpilgjöldum?

Fyrir þremur árum lá fyrir frv. sem náðist ekki samstaða um að lögfesta. Ég held að við hljótum að stefna að því að draga úr þessari skattlagningu varðandi simpilgjöldin. Þetta er óréttlát skattheimta á margan hátt, ekki síst fyrir íbúðakaupendur. Mikil gjaldtaka frá ríkissjóðibeinist að því fólki sem er að standa í því að koma sér upp þaki yfir höfuðið og ef farið er yfir alla þá gjaldtöku sem ríkissjóður hefur af íbúðaeigendum, bæði þeim sem eru að kaupa og þeim sem lenda í vanskilum, skiptir það mörgum milljörðum. Mér finnst því full ástæða til þess að endurskoða það, ekki síst stimpilgjöldin.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra skýrt: Telur hann ekki að sú gjaldtaka sem ég nefndi stangist á við þau svör sem hann gaf hv. þm. Jóhanni Ársælssyni á þessu þingi um þá tillögu sem hv. þm. beitti sér fyrir að var samþykkt á þingi 1993?