Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 16:56:14 (4063)

2000-02-07 16:56:14# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[16:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er engu líkara en hv. þm. hafi ekki hlýtt á lokaorð ræðu minnar en þar var ég einmitt að tala um þessi atriði. Auðvitað er mjög brýnt að gæta fyllsta trúnaðar í skrám af þessu tagi gagnvart því sem leynt ber að fara. En við skulum gá að því að margt af þeim upplýsingum sem fer inn í þessa skrá er opið og aðgengilegt í dag, eins og t.d. í veðbókum sýslumanna þar sem menn geta fengið vottorð og upplýsingar um hvað eignir hafa verið veðsettar fyrir miklum skuldum o.s.frv.

En ég legg áherslu á að ég er auðvitað sammála þingmanninum í því að við þurfum að gæta fyllsta öryggis í þessu efni. Það má vel vera að búa þurfi til sérstök kerfi, dulkóðun eða annað af því tagi til að vernda ákveðinn hluta þessara upplýsinga, en t.d. viðhaldssaga og þess háttar er auðvitað fyrst og fremst hugsað, ef menn vilja fara út í það og kerfið mun bjóða upp á þann möguleika, til að vernda t.d. rétt nýrra kaupenda að fasteign, auðvelda mönnum að sannreyna upplýsingar sem á borð eru bornar, greiða sem sagt fyrir því að eðlileg viðskipti og samskipti geti orðið um þessi atriði. En í grundvallaratriðum er það rétt að auðvitað á að reyna að gæta fyllsta trúnaðar og stefnt verður að því að svo verði þó svo að margt af þessu séu nú þegar upplýsingar sem allir geta haft aðgang að þótt stundum þurfi eilitla fyrirhöfn til.