Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 16:58:02 (4064)

2000-02-07 16:58:02# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[16:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nóg að starfsmenn stóra bróður gæti trúnaðar gagnvart litla bróður í þjóðfélaginu ef starfsmenn stóra bróður mega segja hver öðrum frá upplýsingunum og stóri bróðir geti fylgst með aðgerðum litla mannsins dag frá degi. Það er ekki nóg. Ég vil að nefndin sem um þetta fjallar fari sérstaklega í gegnum það hvernig hægt sé að tryggja einstaklinginn fyrir ofríki ríkisvaldsins þegar svo viðamikil skrá eins og hér um ræðir --- þetta mun verða ein langstærsta tölvuskrá sem sett hefur verið saman hér á landi --- er komin á laggirnar. Ég vil því að menn skoði sérstaklega það atriði hvernig einstaklingurinn verði verndaður.

En eins og ég gat um áðan er þetta mjög gott mál að mörgu leyti. Þarna er verið að leggja á ákveðið gjald sem ég vildi gjarnan sjá tímabundið og lækkandi eftir það því að þetta á að skila hagnaði fyrir alla aðila, líka ríkið. En ég vil að nefndin skoði sérstaklega hvert við erum að stefna með stöðu einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu.