Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 17:04:18 (4066)

2000-02-07 17:04:18# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. fyrir hönd viðskrh. Það er frv. til laga um breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 429 og er 285. mál þingsins.

Frv. þetta er lagt fram samhliða frv. fjmrh. um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna og frv. dóms- og kirkjumrh. um breyting á þinglýsingalögum og fylgir þeim.

Frv. fjmrh. gerir ráð fyrir myndun sameiginlegs gagna- og upplýsingakerfis fyrir allar fasteignir er nefnist Landskrá fasteigna. Með tilkomu Landskrár fasteigna verður sú breyting á hjá Fasteignamati ríkisins að hætt verður að halda sérstaka fasteignaskrá fyrir brunabótamat. Í stað þess verður til eitt samhæft gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi er þeim tengjast, Landskrá fasteigna, og stór hluti hennar eru upplýsingar um byggingarfræðileg atriði er máli skipta við mat á endurstofnverði húseigna sem aftur er grunnur að ákvörðun um brunabótamat þeirra og aðrar viðbótarupplýsingar sem nauðsynlegar eru til ákvörðunar brunabótamats ásamt upplýsingum um þinglýsta eigendur. Skilvirk söfnun, viðhald og framsetning grunnupplýsinga þeirra sem Landskrá fasteigna mun halda er mikilvæg forsenda þess að unnt verði að ákvarða brunabótamat með áreiðanlegum hætti.

Með frv. þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um brunatryggingar. Annars vegar kemur tilvísun til Landskrár fasteigna í stað tilvísunar til fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins. Hins vegar er lögð til breyting á svonefndu umsýslugjaldi skv. 6. gr. laganna er nú rennur til Fasteignamats ríkisins til að standa straum af kostnaði við að uppfæra og halda skrá yfir brunabótamat húseigna. Lögð er til hækkun á umsýslugjaldinu úr 0,025 prómillum af brunabótamati hverrar húseignar í 0,1 prómill af brunabótamati hverrar húseignar til að standa straum af kostnaði við að uppfæra og halda Landskrá fasteigna. Áætlað er að umsýslugjaldið gefi 200 millj. kr. á ári í stað 50 millj. kr.

Í kostnaðaráætlun frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. er fylgir framangreindu frv. fjmrh. um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, er kostnaður við að koma á fót gagna- og upplýsingakerfi Landskrár fasteigna áætlaður um 150 millj. kr. á ári fram til ársloka 2003 en þá er áætlað að hún verði að fullu komin í gagnið. Í því felst m.a. kostnaður við innfærslu þinglýsingabóka sýslumanna í Landskrá fasteigna og uppbygging kerfisins. Er áætlað að allt að 100 aðilar hjá sveitarfélögum og sýslumannsembættum muni annast skráningu í kerfið. Jafnframt er gert ráð fyrir auknum verkefnum á sviði gagnavinnslu og upplýsingagjafar til notenda Landskrár fasteigna.

Væntanlegir notendur landskrár verða fjölmargir. Þar á meðal má nefna atvinnulífið, svo sem fjármálastofnanir, vátryggingafyrirtæki, byggingarfyrirtæki, fasteignasölur og opinbera aðila svo sem ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Auk þess mun allur almenningur geta haft aðgang að Landskrá fasteigna, t.d. í gegnum vefútgáfu.

Fasteignamat ríkisins mun reka Landskrá fasteigna og er áformað að halda skrána á Akureyri þar sem stofnunin rekur umdæmisskrifstofu. Til að þessi fyrirætlun styrki atvinnulífið á Akureyri eins og kostur er kann að vera heppilegra að fá tölvufyrirtæki til að reka landskrána þar, fremur en að hún sé rekin af umdæmisskrifstofunni sjálfri. Reynslan sem fæst af því að reka slíka skrá getur fremur nýst fyrirtæki en ríkisstofnun til vaxtar og skapað reynslu og grundvöll til að taka að sér fleiri verkefni á þessu sviði eða bjóða fram tengda þjónustu. Grundvöllur þess að Landskrá fasteigna sé rekin á Akureyri er að gagnaflutningur til og frá umdæmisskrifstofunni sé hraðvirkur og öruggur.

Breytingin mun leiða til nokkurrar hækkunar á fasteignasköttum. Fyrir eigendur íbúða er hækkunin yfirleitt innan við 1.000 kr. á ári. Nánari grein er gerð fyrir áhrifum breytingarinnar í grg. með frv. Fyrirhuguð gildistaka framangreindra frv. um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna og breyting á þinglýsingalögum er 1. janúar 2001. Hins vegar er gert ráð fyrir því í 3. gr. að lög þessi öðlist gildi nú þegar, enda tryggir breytingin fjármögnun á nauðsynlegum undirbúningi að gerð Landskrár fasteigna.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn.