Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 17:48:33 (4071)

2000-02-07 17:48:33# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað sjálfsagt mál og þarf ekki að beina því með milligöngu minni til dómsmrh. að leitað verði álits tölvunefndar. Þingnefndin biður bara um það, hún biður um umsögn tölvunefndar og það er sjálfsagt mál að gera það. Gengið hefur verið út frá því að allir aðilar sem á einhvern hátt tengjast þessu verði beðnir um umsögn.

Að því er varðar kostnaðarþáttinn þá verð ég að segja að einhver smámisskilningur er hér á ferðinni. Ég er meðflutningsmaður og stuðningsmaður þess frv. sem hæstv. viðskrh. mælir fyrir um umsýslugjald sem leggist á fasteignir til að byggja upp þetta kerfi. Ég hef ekki andmælt því, enda væri það út í hött. Það þarf að koma þessu kerfi á laggirnar og það kostar heilmikla peninga eins og við höfum sagt. Það sem ég var að tala um og tók undir með þingmanninum var að þegar kemur að rekstri kerfisins, þegar menn geta fengið þar aðgang að upplýsingum þá eigi þeir auðvitað að borga eitthvað fyrir og það verður hluti af þeim kostnaði sem fylgir því að reka kerfið, þ.e. þjónustugjöld vegna aðgangs að kerfinu sem vonandi geta staðið undir rekstri þess að stærstum hluta þó að við vitum ekki um það á þessari stundu.