Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 17:50:00 (4072)

2000-02-07 17:50:00# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[17:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki sjálfsagðara en svo að tölvunefnd kíkti á þetta mál að í framsöguræðu sinni sagði hæstv. fjmrh. að tölvunefnd ætti að skoða þetta eftir að málið yrði að lögum. Ég er að tala um að tölvunefnd á að fara yfir þetta og gefa álit sitt og umsögn til Alþingis áður en frv. verður að lögum og á því er mikill munur. Enn og aftur ítreka ég að það er ámælisvert að hæstv. dómsmrh. eða hæstv. fjmrh. hafi ekki séð ástæðu til þess að gera það áður en málið kom fyrir þingið.

Sjálfsagt er misskilningur í því sem ég hélt fram áðan. Ég hélt að hæstv. ráðherra væri að taka undir með mér að fasteignaeigendum og íbúðareigendum yrði hlíft en greinilega vill hæstv. ráðherra að íbúðarkaupendur standi undir þessum stofn- og rekstrarkostnaði sem verður næstu fjögur árin og það ber að harma. Ég hélt að hæstv. ráðherra væri að taka undir með mér að það væru notendurnir sem ég taldi upp, t.d. sýslumannsembættin, tryggingafélögin, atvinnulífið og fasteignasalar sem ættu að standa undir þessu frá upphafi. Ýmsir af þessum aðilum hafa þurft að leggja í kostnað til að halda utan um fasteignir og lóðir með einum eða öðrum hætti þannig að strax er þá verið að draga úr þeim kostnaði sem þeir hafa haft af því. Þeir eiga því auðvitað þegar í upphafi að taka þátt í að koma þessu á laggirnar.

Ég geri mér vissulega grein fyrir því að hæstv. ráðherra fylgir stjfrv. sem hæstv. starfandi viðskrh. mælir fyrir. En ég vænti þess og eygi von í hæstv. starfandi viðskrh. með tilliti til málflutnings hans þegar hann var óbreyttur þingmaður að hann muni fallast á þau sjónarmið að notendurnir eigi að greiða fyrir þetta þegar í upphafi og hann muni mæla því bót hér og mæla fyrir því að fasteignaeigendum verði hlíft og að efh.- og viðskn. skoði þá leið að flytja þennan kostnað, 600 millj., frá íbúðareigendum yfir á notendurna, eins og hér hefur verið lagt til.