Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 17:54:04 (4074)

2000-02-07 17:54:04# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef áhuga á að hæstv. ráðherra upplýsi mig dálítið um meininguna með þessu máli. Það virðist samkvæmt frv. eingöngu vera átt við skráningu fasteigna en það stendur síðan í athugasemdum við lagafrv., með leyfi forseta:

,,Með frv. þessu um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna og frv. til laga um breyting á lögum um brunatryggingar, er stigið þýðingarmikið skref í átt að því að sameina helstu skrár um fasteignir í landinu, fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins og þinglýsingabækur sýslumanna.``

Hæstv. ráðherra talaði um að beita nýjustu tækni og þekkingu til að halda utan um upplýsingar. Ég lít þannig á að þarna sé um að ræða að stórum hluta til þjónustuhlutverk við fasteignaeigendur og aðra sem eiga eða þurfa að sækja þjónustu til sýslumannsembætta og annarra slíkra. Mér leikur forvitni á að vita hvort menn hafi hugsað sér að þinglýsingar á öðru en fasteignum yrðu með í þessu og hvort menn hafi hugsað sér að landskráin þýði það að menn þurfi ekki að fara milli þjónustusvæða en geti óskað eftir og látið framkvæma þinglýsingar hjá sýslumannsembætti í sínu umdæmi, þurfi ekki að senda gögn eða fara milli sýslumannsembætta með skráningu eða þinglýsingar á því andlagi sem menn vilja láta þinglýsa. Þetta virðist gefa alla vega tilefni og möguleika til þess. En ég tek eftir því að í 1. gr. frv. um breyting á þinglýsingalögum er m.a. sagt ,,skjal er afhent í röngu umdæmi`` sem forsendur fyrir því að máli sé vísað frá.

Ég spyr: Er ekki meiningin með því sem hér er verið að gera að hagræða fyrir þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda með því að þeir geti nýtt sýslumannsembætti í heimahéraði?