Skráning og mat fasteigna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 18:08:37 (4080)

2000-02-07 18:08:37# 125. lþ. 57.9 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, 281. mál: #A þinglýsingalög# (Landskrá fasteigna) frv. 45/2000, 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[18:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja út af þunglyndinu sem hæstv. ráðherra nefndi að betra er að segja þjóðinni satt en skrökva að henni. En það að staðan sé öðruvísi hjá heimilunum en var fyrir fimm árum, það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, ég tek undir það. Skuldir heimilanna hafa vaxið um 140 millj., barnabætur hafa verið skertar um 1.200 millj. Fasteignaverð hefur hækkað á örfáum mánuðum um 35%, viðskiptahallinn aukist o.s.frv. Ég bið hæstv. ráðherra því að tala varlega. Ekki eru allir sammála hæstv. ráðherra, ekki fólk sem hefur borið skarðan hlut frá borði í tíð þessarar ríkisstjórnar, t.d. lífeyrisþegar. En ég ætla ekki að halda langa ræðu um það í stuttu andsvari. Ég var mjög hrædd um það á tímabili að hæstv. ráðherra væri að draga þau orð til baka sem hann sagði hér áðan. Hann sagði að það ætti að skoða málið og hann gaf opnun á að falla frá þessari gjaldtöku á fasteignaeigendur en sem betur fer staðfesti hann í lokaorðum sínum að það ætti að skoða alvarlega í nefndinni hvort ekki ætti að gera breytingar á þessu frv. Það er kjarnaatriðið í málinu og ég fagna því, herra forseti.