Lífeyrissjóður sjómanna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 18:36:47 (4085)

2000-02-07 18:36:47# 125. lþ. 57.13 fundur 150. mál: #A lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um ákveðnar tölur. Ég er því miður ekki með þær undir höndum núna. En eins og ég gat um í ræðu minni hefur það verið eins konar áætlun okkar í sjómannasamtökunum þegar við skoðuðum þetta að innan tveggja ára ef þetta yrði samþykkt væri líklegt að staða sjóðsins yrði komin plús-megin. Þá gengum við út frá því að ávöxtunin væri um 8% en núna er hún ívið betri. Hún var 12,5 í fyrra þannig að sjóðurinn er núna með neikvæða stöðu upp á rúma tvo milljarða, ég man ekki nákvæmlega töluna, rúma 2 milljarða kr. en var með um 9 milljarða eins og hv. þm. gat um í fyrra. Það er því álit okkar að á tveimur árum ætti sjóðurinn að vera kominn í plús. Samkvæmt lögum um almenna lífeyrissjóði þarf hann að komast 5% í plús til þess að aftur megi fara að bæta réttindi sjóðfélaga. Við vorum að ímynda okkur að það gæti farið að sjást í það eftir 2--3 ár.