Lífeyrissjóður sjómanna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 18:39:57 (4087)

2000-02-07 18:39:57# 125. lþ. 57.13 fundur 150. mál: #A lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er rétt sem hefur komið fram að það hefur oft á umliðnum árum verið fjallað um Lífeyrissjóð sjómannan á hinu háa Alþingi. Þegar til þess er litið að sjóðurinn er að borga meira í örorkulífeyri en ellilífeyri sjá menn náttúrlega alvöru málsins.

Eins og fram hefur komið greiddi Lífeyrissjóður sjómanna á árinu 1999 354 millj. í örorkulífeyri sem er 42% af lífeyrisgreiðslum sem voru 829 millj. í fyrra. Örorkulífeyrir 354 millj. en ellilífeyrir um 341 eða 41% á móti 42% í örorkulífeyri.

Þetta er til umhugsunar um stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna. Það er rétt hjá hv. ræðumanni og flutningsmanni þessa frv. að þetta er mjög alvarleg staða sem upp er komin með tilliti til þeirrar miklu slysatíðni sem er meðal sjómanna og það held ég að hafi aldrei verið í hugum manna að Lífeyrissjóðurinn væri jafnafgerandi styrkveitingaraðili til sjómanna í örorkumálum sem eru allt of mikil, því miður. Enn er allt of há slysatíðni til sjós, um 400-500 sjómenn slasast árlega og virðist ákaflega lítið lát vera á slysatíðni meðal sjómanna.

Mér dettur í hug að nefna það hér, með leyfi forseta, þegar skoðuð er hin mikla slysatíðni sem verður á sjó, þá er hér m.a. ályktun frá aðalfundi LÍÚ í október 1997 þar sem þeir segja, með leyfi virðulegs forseta:

,,Slys á fiskiskipaflotanum eru allt of tíð. Við vitum að hér er um áhættusöm störf að ræða en fjöldi slysa er langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Því er mikil ástæða til að efla alla fræðslu sem stuðlað getur að fækkun slysa. Full ástæða er til þess fyrir útvegsmenn að ganga ríkt eftir því að framkvæmdar séu æfingar á slysavörnum um borð í hverju skipi með reglulegum hætti.``

Ekki er langt síðan, herra forseti, að ég flutti þáltill. um endurskoðun slysabóta sjómanna. Í maí 1994 var þessi þáltill. samþykkt og send aðilum sem áttu að vinna að skoðun málsins. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar útgerðar, sjómanna og tryggingafélaga. Það er athyglisvert að skoða nefndarálitið og niðurstöðu þessarar nefndar sem var sammála um að vera ósammála. Í texta þessarar nefndar sem skilar af sér til samgrh. fyrir réttu ári segir, með leyfi forseta:

Nefndarmenn hafa ekki orðið sammála um afstöðu til viðfangsefnisins og með bréfi þessu fylgja tvær tillögur varðandi framhald málsins. Önnur tillagan felur í sér að skaðabótaábyrgð útgerðarmanna verði hlutlæg, þ.e. að þeir beri bótaábyrgð á slysum er sjómenn verða fyrir í starfi í þágu útgerðar án tillits til sakar. En sjómenn þurfa ávallt að sanna sök ef þeir verða fyrir slysi til að geta gert bótakröfu.

Hin tillagan gerir ráð fyrir að ekkert frekar verði aðhafst af hálfu löggjafarvaldsins að því er varðar bótaábyrgð eða vátryggingarfjárhæðir í slysatryggingu sjómanna. Eðlilegt sé að sjómenn og útgerðarmenn ákveði í kjarasamningum hvernig málum sé skipað að þessu leyti.

Það hittist nú svo á að ekki er langt í kjarasamninga milli sjómanna og útgerðarmanna og verður mjög áhugavert að fylgjast með framvindu málsins, hvernig tekið verður á málinu í þeim samningum sem fram undan eru, vegna þess eins og ég sagði í upphafi máls míns. Eins og fram kom líka hjá hv. framsögumanni, Guðjóni A. Kristjánssyni, er slysatíðni meðal sjómanna allt of mikil og enginn lífeyrissjóður á landinu kemst í hálfkvisti á við þær miklu örorkubætur sem lagðar eru á Lífeyrissjóð sjómanna og annarra smærri sjóða úti á landi sem eru með sjómenn innan vébanda sinna. Ekki þekkist jafnhá örorkugreiðsla út úr nokkrum sjóði og þar sem sjómenn eiga hlut að máli.

Þegar hins vegar er litið til þess sem verið hefur að gerast nú, þá er það rétt eins og hér kom fram að þetta mál á sér sögu allar götur frá 1981 þegar félagsmálapakkar voru mjög í umræðunni og þótti sjálfsagt að allar starfsstéttir landsins fengju sérstaka umbun fyrir að gera ekki kröfu um launahækkanir sem væru í allt öðrum mæli en kjarakröfur sem voru þá lagðar fram hljóðuðu þá upp á.

Meðal annars er rétt að rifja aðeins upp að sjómenn féllu frá 3% hækkun fiskverðs sem voru engar smáupphæðir þá, auk þess að falla frá kröfu um 3% hækkun á kauptryggingu.

Virðulegi forseti. Staða Lífeyrissjóðs sjómanna er nú þannig að árið 1998 vantaði 13,6 milljarða upp á að sjóðurinn ætti fyrir skuldbindingum sínum í þann viðsnúning að núna að loknu uppgjöri 1999 vantar upp á um 3,2 milljarða að hann eigi fyrir skuldbindingum sínum. Þetta stafar fyrst og fremst af breyttum lögum og góðri ávöxtun. Staða sjóðsins væri sú að ef honum væri lokað í dag ætti hann 4,3 milljarða í plús, þ.e. umfram skuldbindingar sínar.

Fyrir viku var lögð fram tryggingafræðileg úttekt á Lífeyrissjóði sjómanna þar sem segir að staða sjóðsins nú sé þannig að væri iðgjaldið hækkað um 1% eins og frv. sem er til umræðu gerir ráð fyrir, þá mundi sjóðurinn í nánustu framtíð eiga fyrir skuldbindingum sínum, þ.e. að óbreyttum starfsreglum sjóðsins eins og þær eru í dag með þeim skerðingum sem hafa þegar verið framkvæmdar.

Ég ætla ekki að hafa orð mín miklu fleiri, virðulegi forseti, um þetta mál en ég tel eins og kom fram hjá framsögumanni og í orðum mínum í upphafi máls míns að þau áföll sem sjóðurinn er að taka á sig ættu að vera annars staðar en innan dyra lífeyrissjóðsins. Örorku- og slysabætur vegna tíðra slysa sjómanna ættu auðvitað að vera innan útgerðarinnar sjálfrar og það væri útgerðarinnar að standa straum af þeim mikla kostnaði sem fylgir óeðlilega hárri slysatíðni meðal sjómanna. Ég er ekki að segja að það hefði bein áhrif á slysatíðni sjómanna en ég er sannfærður um að fleiri mundu koma að málinu og leggja sig fram um að breyta þeirri miklu slysatíðni sem er meðal sjómanna, leggja sig fram um það að reyna að minnka slysatíðnina og gera þetta þannig að ekki væri lengur hægt að tala um óeðlilega slysatíðni. Hún þekkist hvergi nokkurs staðar meðal sjómanna í nágrannalöndunum né almennt þannig að hér er mikið verk að vinna. Því hefur þessi mikli þungi verið lagður á lífeyrissjóðinn eins og ég kom áðan að.