Bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 13:37:52 (4091)

2000-02-08 13:37:52# 125. lþ. 58.7 fundur 267. mál: #A bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna# frv. 17/2000, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra. Með frv. þessu er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningi þessum sem gerður var í París þann 13. janúar 1993. Með þál. þann 28. apríl 1997 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda samninginn og var hann fullgiltur fyrir Íslands hönd sama dag.

Samningurinn var lagður fyrir 47. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 1992 og þar voru öll ríki heims hvött til að gerast aðilar að samningnum. Samningurinn hefur verið undirritaður af fulltrúum 169 ríkja og aðildarríki samningsins eru nú 126 talsins.

Með efnavopnasamningnum skuldbinda aðildarríkin sig til að virða bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og að eyða þeim vopnum sem til eru. Einnig felur samningurinn í sér skyldu fyrir aðildarríkin til að gefa út yfirlýsingu um hvort efnavopn séu geymd á landsvæði þeirra og hvort þar séu framleiðslustöðvar efnavopna.

Þá hefur samningurinn að geyma ákvæði um alþjóðlegt eftirlit með framkvæmd hans og eru þau ákvæði hin ítarlegustu í afvopnunarsamningi til þessa. Þannig er gert ráð fyrir sannprófunum og öðru eftirliti á vettvangi í aðildarríkjunum.

Herra forseti. Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir efnavopnasamningnum og mun gera grein fyrir meginákvæðum frv.

Í 1. gr. frv. er skilgreint hvað telst efnavopn og er sú skilgreining samhljóða því sem er í efnavopnasamningnum.

Í 2. gr. frv. er að finna almennt bann við hvers konar meðferð efnavopna en brot við slíku banni varðar refsingu samkvæmt 6. gr. laganna. Brot af þessu tagi geta vitanlega verið mjög alvarleg og því er lagt til að refsimörk verði fangelsi allt að sex árum.

Í 3. gr. frv. er að finna ákvæði um innlent eftirlit með framkvæmd laganna og efnavopnasamningsins hér á landi. Lagt er til að Hollustuvernd ríkisins verði falið það eftirlit. Þetta þykir eðlilegast með hliðsjón af þeim verkefnum sem sú stofnun hefur þegar með höndum, svo sem á grundvelli laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988.

Þá er í 4. gr. að finna heimildarákvæði fyrir erlenda eftirlitsmenn sem starfa á grundvelli efnavopnasamningsins til að framkvæma hér á landi skoðanir sem gert er ráð fyrir í samningnum í þeim tilgangi að fylgjast með því hvort Ísland fullnægi alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að fulltrúar utanrrn. og Hollustuverndar verði viðstaddir slíkar skoðanir.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.