Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 14:48:14 (4101)

2000-02-08 14:48:14# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda á að drögin sem ég hef undir höndum eru tillögur nefndarinnar eins og þær komu frá nefndinni, sem vann í raun frv. og þess vegna er ekkert óeðlilegt að þetta tvennt sé borið saman. Ég geri mér grein fyrir því að þetta voru frumvarpsdrög. Þau voru hins vegar lögð fyrir heilbr.- og trn. að kröfu nokkurra stjórnarandstæðinga í nefndinni þar sem þessi mál tengjast óneitanlega. Það er mjög eðlilegt að þetta tvennt sé borið saman, annars vegar tillögur nefndarinnar og hins vegar sú útgáfa sem hér kemur fram og eðlilegt að beðið sé um skýringar á því.

Varðandi gagnagrunnslögin annars vegar og hins vegar þetta frv. er það rétt sem hæstv. dómsmrh. segir að sérlög ganga framar almennum lögum. Það er almenn regla. Eigi að síður þurfa sérlög að standast alþjóðasamþykktir. Við erum hér að lögleiða ákveðna tilskipun Evrópusambandsins sem innifelur ákveðna skilgreiningu á hvað séu persónugreinanlegar upplýsingar. Á meðan sú skilgreining stangast á við þessi ákveðnu sérlög er ekki óeðlilegt að við spyrjum: Hvernig telur hæstv. dómsmrh. að gagnagrunnslögin standist þessa skilgreiningu? Í raun er mjög skýrt, eins og ég rakti í máli mínu áðan, hvernig tilskipunin tekur á þessu. Þegar við lögleiðum þessa tilskipun þá hljótum við að lögleiða hana almennt og einnig varðandi þessi sérlög. Ekki er nóg að lögleiða hana bara í almennum lögum. Sérlög þurfa vissulega að taka tillit til og vera byggð og grundvölluð á alþjóðasamþykktum og alþjóðlegum skuldbindingum sem við þurfum að fara eftir.