Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 15:01:35 (4105)

2000-02-08 15:01:35# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um það að hér er um stórt og mikilvægt mál að ræða. En hvað teljast viðkvæmar persónuupplýsingar? Hv. þm. nefndi sérstaklega breytingar sem hefðu verið gerðar á 2. gr. frv. frá þeim drögum sem hér eru margumrædd. En ég vil benda á athugasemdir með þeim lið frv. á bls. 47, þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Viðkvæmar persónuupplýsingar. Í þessu ákvæði og í 9. gr. frv. er tekið upp ákvæði 8. gr. tilskipunar ESB. Ákvæðið skýrir hvað teljast vera viðkvæmar persónuupplýsingar og hefur það fyrst og fremst þýðingu við afmörkun á því hvenær vinnsla persónuupplýsinga er leyfisskyld skv. 33. gr. Ákvæðið svarar að mestu til 4. gr. gildandi laga að því frátöldu að upplýsingar um veruleg félagsleg vandamál teljast ekki lengur til viðkvæmra upplýsinga. Á hinn bóginn er tekið fram að með upplýsingum um heilsuhagi sé m.a. átt við upplýsingar um erfðaeiginleika. Þá er það nýmæli að finna í frumvarpsgreininni að upplýsingar um stéttarfélagsaðild teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga, en þar er tekið mið af 1. mgr. 8. gr. tilskipunar ESB.``

Ég segi því, hæstv. forseti, að það virðist vera nokkuð misjöfn áhersla manna á hvað teljast viðkvæmar persónuupplýsingar. Enn fremur segir hér aðeins neðar:

,,Ljóst er að oft geta aðrar upplýsingar en þær sem hér eru taldar upp verið viðkvæmar fyrir hlutaðeigandi. Í framkvæmd verður að taka tillit til slíks, jafnvel þótt ekki sé um að ræða upplýsingar sem teljast viðkvæmar samkvæmt upptalningu þessa ákvæðis.``