Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 15:03:32 (4106)

2000-02-08 15:03:32# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, KF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Katrín Fjeldsted:

Hæstv. forseti. Ég stíg í ræðustól fyrst og fremst til að fagna þessu frv. til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en því er ætlað að svara kröfum Evrópusambandsins, tilskipun þess frá því í október 1995. Ég er ein af þeim sem eiga sæti í allshn. og tel viturlegra að tjá mig í ítarlegra máli um efni þessa frv. þegar það kemur úr nefndinni og ætla þess vegna að vera mjög stuttorð hér og nú. Ég lít svo á að frv. og í kjölfarið þau lög sem sett verða á Alþingi um þetta efni hljóti að verða hönnuð eftir þeim kröfum sem Evrópusambandið gerir og byggja eigi á tilskipun þess. Öll þau atriði hljóta að hafa forgang við vinnu allshn.

Ég ætla ekki að blanda mér í það hvort upptalningin er tæmandi í 2. gr. um viðkvæmar persónuupplýsingar en þetta eru atriði sem allshn. mun að sjálfsögðu fara ítarlega í. Við Íslendingar erum kannski ekki eins á varðbergi fyrir viðkvæmum persónuupplýsingum og ýmsar aðrar þjóðir sem vilja ekki einu sinni taka upp kennitölur. Við erum orðin svo vön því að þjóðfélagið snúist um kennitöluna að það liggur við að maður segi fyrst kennitöluna og næst til nafns þegar maður heilsar. Við þurfum kannski að staldra svolítið við eins og komið hefur fram í máli manna. Til stendur að setja skýrari reglur um persónuvernd fyrst og fremst byggðar á þeim grundvelli að ekki sé hægt að misnota persónuupplýsingar. Stóri bróðir leitar eftir þeim og ýmsir vilja upplýsingar af ýmsum toga um hag granna sinna eða samferðamanna. Ég fagna því líka að gert er ráð fyrir að búa betur að vaxandi starfsemi tölvunefndar.

Ég hnaut svolítið um þetta nýja heiti á stofnuninni, Persónuvernd. Þótt orðið sé gegnsætt þá getur það vafist fyrir þeim sem sér þetta heiti utan á húsi, hvort þarna sé um grasrótarsamtök að ræða eða opinbera stofnun, en að sjálfsögðu hlýtur það að verða einnig til umræðu í allshn. Það er vandlifað í henni veröld en með því að hafa lög um persónuvernd skýr auðveldar það samskipti manna.