Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 15:06:41 (4107)

2000-02-08 15:06:41# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum gott mál og þarft. Búa á til nýja stofnun, eins og við gerum gjarnan á tveggja vikna fresti. Sú stofnun verður að sjálfsögðu í Reykjavík, ég vil benda landsbyggðarþingmönnum á það, og hún mun kosta 50 millj. kr., ég vil benda skattgreiðendum á það, og allt er þetta í nafni góðra mála, herra forseti. Þetta var bara rétt inngangurinn.

Það mál sem er hér á ferðinni er mjög þarft mál og þetta er mjög stórt mál. Það bætir vonandi stöðu einstaklingsins gagnvart stóra bróður, vegna þess að í sívaxandi mæli er verið að safna saman miklum gögnum í stóra gagnagrunna í nafni hagræðis, sparnaðar og léttari stjórnsýslu. Við ræddum í gær um Landskrá fasteigna sem á að spara mikið og auka hagræði en gerir það að verkum að á einum stað eru geymdar upplýsingar um eignir manna og skuldir í verulegum mæli. Í dag er hægt að rekja ferðir nánast hvers einasta Íslendings um allan heim hjá krítarkortafyrirtækjunum. Við vitum allt um fjárhagsstöðu einstaklinga í skattskrám, og allar þessar skrár eru farnar að geyma mjög miklar upplýsingar um menn. GSM-síminn gerir það að verkum að hægt er að rekja hvar menn eru staddir frá mínútu til mínútu og svo má lengi telja.

Herra forseti. Hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar þarf að kanna hvaða áhrif það hefur á alla þá gagnagrunna sem eru í gangi í dag, og ég nefni nokkra. Það er þjóðskráin, þar getur hver landsmaður framkvæmt pínulitla vinnslu, hann getur t.d. kannað hverjir eru fæddir sama dag og hann, hann getur kannað hverjir eiga heima í ákveðnu húsi o.s.frv. og fengið pínulitlar upplýsingar. Það er ákveðin vinnsla. Símaskrárnar eru komnar með miklar upplýsingar um hverjir eiga heima á ákveðnum stöðum, oft á tíðum betri en þjóðskráin, þær eru oft nýrri. Landskrá fasteigna verður með miklar upplýsingar, um veð og annað slíkt, veðbönd og jafnvel upplýsingar um viðhald fasteigna o.s.frv. sem á geyma þar inni. Krabbameinsskráin hefur miklar upplýsingar, aðallega um konur, sem eru mjög viðkvæmar og allt geymt undir kennitölu. Reiknistofa bankanna hefur upplýsingar um öll fjármál okkar meira og minna. Svo er ein skrá sem ég hef aldrei skilið af hverju er ekki búið að eyða nú þegar, það er skrá yfir þær konur sem hafa farið í fóstureyðingu. Þar eru upplýsingar geymdar undir kennitölu, að mér skilst og sé ég engan tilgang með þeirri skrá. Svo eru það skattskrár og læknaskýrslur sem læknar hafa verið að búa til áratugum saman, með alls konar upplýsingum, þörfum og óþörfum, um sjúklingana. Nefndin þarf að kanna hverju af þessum gögnum má hreinlega eyða. Það á að eyða þeim samkvæmt þessu frv. ef af lögum verður.

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég rak augun í sem eru mikilsverð. Það er í fyrsta lagi 6. gr. Þar stendur að lögin gildi um vinnslu ef ábyrgðaraðilinn hefur staðfestu hér á landi og svo segir að þau gildi einnig um vinnslu þó ábyrgðaraðilinn hafi staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. En það vantar að geta þess hvað gerist með aðila sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er reyndar tekið fram annars staðar, en það væri betra að hafa það þarna, þannig að það sé tæmandi upptalning.

Í 7. gr. er sagt: ,,Við meðferð persónuupplýsinga skal þess gætt að þær séu:`` Síðan er talið upp 1, 2, 3, 4 og 5 atriði, en ekki sagt hvort það er og/eða, hvort öll atriðin eigi að gilda samtímis eða hvort eitt eigi að gilda. Það vantar því inn í. Ég þóttist lesa út úr grg. með frv. að í 7. gr. ætti að standa á eftir 4. tölul. og 5. lið ,,skal afmá eða leiðrétta`` þannig að allir liðirnir eigi að vera í gildi. Samkvæmt grg. með frv. þá á hins vegar í 8. gr. að standa ,,eða``, eitt af atriðunum á að gilda, ekki öll. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt þegar lögin eru lesin, þar þarf því að standa á eftir næstsíðasta liðnum ,,eða``. Sömuleiðis taldi ég mig sjá í 9. gr. að þar ætti að standa ,,eða``, sem sagt: ,,Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er því aðeins heimil að:`` eitt af atriðunum sé uppfyllt. Þetta er náttúrlega mjög mikilvægt rökfræðilega þegar menn fara að lesa lögin ef frv. verður að lögum. Þetta þarf hv. nefnd að taka til greina og reyna að bæta úr.

Herra forseti. Að öðru leyti tel ég að þetta frv. taki á þeim vanda sem við er að etja, t.d. 17. gr., þar sem hin nýja stofnun, Persónuvernd, á að birta lista yfir allar þær skrár sem eru í gangi sem hún er búin að samþykkja. Aðrar skrár eru væntanlega ólöglegar, þannig að þær eiga ekki að vera til og það sem kannski er mest um vert er í 18. gr. þar sem mjög mikilvægt ákvæði er um að hinn skráði eigi rétt á að fá upplýsingar frá ábyrgðaraðila hvaða upplýsingar eru geymdar um hann og hver tilgangur vinnslunnar er og hver hafi fengið upplýsingar um hann og hvenær. Það tel ég vera eitt almikilvægasta málið og hefði sennilega dugað í gagnagrunnsfrv. í staðinn fyrir að fara þá miklu og þungu leið til dulkóðunar sem um leið eyðileggur gildi gagnagrunnsins að einhverju leyti. Ég tel að ef þessi leið hefði verið farin með gagnagrunninn í heilbrigðiskerfinu hefði hann verið fullt eins öruggur til notkunar eins og hann er í dag og jafnvel öruggari.

Herra forseti. Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða meira um frv., það er mjög mikilvægt. Það stendur vörð um einstaklinginn gagnvart stóra bróður að svo miklu leyti sem það er hægt, því að öll þessi samansöfnun á upplýsingum hlýtur að leiða til þess að staða einstaklingsins verður mjög viðkvæm og hættuleg þegar og ef einhver kemst í þá aðstöðu að nota öll þau gögn sem um einstaklinginn eru geymd.