Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:32:47 (4119)

2000-02-09 13:32:47# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Þegar Alþingi kom saman í haust lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram fjögur mál sem sneru öll að því hvernig mætti herða eftirlit á fjármagnsmarkaði án þess að skerða á nokkurn hátt möguleika markaðarins til áframhaldandi þróunar. Þá var komin upp í þjóðfélaginu umræða sem dró úr trúverðugleika ýmissa fjármálastofnana og starfsmanna þeirra. Rætt var um hættu á óeðlilegri samþjöppun og eignamyndun á markaðnum, hættu á innherjaviðskiptum og nauðsyn á skýrum samræmdum verklagsreglum. Til að mæta þessari gagnrýni lögðum við m.a. fram þáltill. um að fela viðskrh. að sjá um að allar stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaðnum settu sér siðareglur í viðskiptum. Þær fælu í sér að þeim sem vinna við fjármálafyrirtæki bæri að varast að hagnýta sér tiltekið ástand beint eða óbeint til eigin framkvæmda.

Íslensk fjármálafyrirtæki sem höndla með verðbréf hafa í flestum tilvikum sett sér verklagsreglur sínar en það er ekki nóg ef ekki er farið eftir þeim. Það hefur komið berlega í ljós á síðustu vikum að lánastofnanir og fyrirtæki hafa viðurkennt að hafa brotið verklagsreglur sínar, nánast hunsað þær alveg. Því er borið við að þær séu úr sér gengnar og þarfnist breytinga í takt við breyttar aðstæður. Það er léleg afsökun þar sem fyrirtækin sjálf semja reglurnar og hefðu því að mínu mati átt að koma umkvörtunum sínum og brtt. á framfæri mun fyrr þannig að koma mætti í veg fyrir þau vinnubrögð sem hafa komið í ljós á síðustu dögum þar sem reglur er varða viðskipti með óskráð bréf hafa verið þverbrotnar.

Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við framkvæmd verklagsreglna hjá sex fyrirtækjum, m.a. Búnaðarbankanum sem lýtur ótvírætt yfirumsjón ráðherra. Ráðherra hefur sagt að hún sé tilbúin til að beita sér fyrir breytingum á lögum og reglum til að koma í veg fyrir slíkar uppákomur hjá fjármálafyrirtækjum og tryggja að eftir reglum sé farið. Ég spyr því: Í hverju eru þær breytingar fólgnar? Telur hæstv. ráðherra nauðsynlegt að lögbinda ákveðnar verklagsreglur um eigin viðskipti starfsmanna og stjórnenda lánastofnana og verðbréfafyrirtækja? Ákvæði um verklagsreglur ná aðeins yfir lánastofanir og verðbréfafyrirtæki. Telur hæstv. ráðherra þá ekki eðlilegt í ljósi breyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði þar sem þátttaka ýmissa sjóða í verðbréfamarkaðnum er mikil að verklagsreglur nái yfir fleiri stofnanir og sjóði, t.d. lífeyrissjóðina, vátryggingafélög og aðra eftirlitsskylda aðila?

Við afgreiðslu Alþingis á frv. sem heimilaði sölu hluta í Landsbanka og Búnaðarbankanum gagnrýndu þingmenn Samfylkingarinnar harðlega þann stutta undirbúningstíma sem ætlaður var til sölu á hlutum í þessum fjármálastofnunum. Við drógum í efa að hægt væri að ganga þannig frá málum að sem best væri staðið að sölunni. Eftir að salan fór fram hafa komið upp ýmis álitamál um framkvæmdina. Sérstaklega er spurt um hvort eðlilegt sé að sömu aðilar og semja útboðslýsingu varðandi sölu bréfanna geri sjálfir tilboð í bréfin og fái þannig stórar fjárhæðir í sinn hlut. Reglur er varða innherjaviðskipti eru alls ekki nógu skýrar. Aldrei má leika nokkur vafi á því að þessir aðilar gæti fyrst og fremst hagsmuna viðskiptavina sinna en láti eigin hagsmuni víkja.

Ég tel eðlilegt að í lögum um verðbréfaviðskipti séu skýr ákvæði um þetta. Skýr ákvæði er að finna í dönskum lögum en ekki hér. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Mun hún beita sér fyrir því að sett verði strangari löggjöf um innherjaviðskipti, t.d. skýrari ákvæði um hverjir teljist innherjar og bann við viðskiptum innherja að liðnum ákveðnum tíma frá birtingu afkomutalna fyrirtækja?

Þá hafa eigin viðskipti fjármálafyrirtækja verið mjög áberandi á síðustu vikum. Fjármálafyrirtæki hafa verið að kaupa stóra hluti í fyrirtækjum og selt síðan aftur fyrir dágóðan hagnað. Ef viðskipti með fyrirtæki sem keypt er í eru lítil getur fjármálafyrirtækið í raun stjórnað verði þess. Á eins litlum markaði og hér er getur hættan á slíkri verðstýringu verið töluverð. Er ekki ástæða til að skoða þennan þátt viðskiptanna sérstaklega og takmarka jafnvel svigrúm fjármálafyrirtækja til eigin viðskipta af þessu tagi? Það er alveg ljóst að það verður að eiga sér stað siðbót á fjármálamarkaðnum. Hegðun manna síðustu vikur hefur síst orðið til að auka traust fólks á fjármálastofnunum og nægir að vísa til frétta á Bylgjunni í hádeginu í dag þar sem fjallað var um Búnaðarbankann.

Setning siðareglna í viðskiptum yrði áreiðanlega til þess að efla siðferðisvitund þeirra sem í hlut eiga. En þó má gera enn betur, t.d. með því að koma á laggirnar sérstakri siðanefnd sem hefði það hlutverk að sjá um að settum siðareglum væri framfylgt og fjallaði um siðferðileg álitaefni. Því spyr ég: Mun ráðherra beita sér fyrir því að settar verði siðareglur í viðskiptum eins og þáltill. Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir og jafnframt verði komið á fót sérstakri siðanefnd sem fjalli um siðferðileg álitamál? Ríkið á að sjá um að settar séu skýrar og afdráttarlausar leikreglur á fjármagnsmarkaði og að þeim sé framfylgt.

Á haustþingi voru lögð fram tvö frv. um styrkingu Fjármálaeftirlitsins, annað frá Samfylkingunni, hitt frá ríkisstjórn. Eru breytingarnar sem þar eru lagðar til nægjanlegar eða þarf enn frekari styrkingu á heimildum Fjármálaeftirlitsins í ljósi atburða og umræðu í síðustu viku?