Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:49:48 (4124)

2000-02-09 13:49:48# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefur verið einörð stefna ríkisstjórnarinnar að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og stefna að því að selja þá á almennum markaði. Það er okkar skoðun að það sé skynsamleg og eðlileg leið og farsæl fyrir þjóðina.

Á leiðinni hafa orðið hnökrar sem ástæða er til að staldra við og velta fyrir sér hvort við getum ekki bætt úr þeim reglum sem við styðjumst við og bæta úr þeim ágöllum sem fram hafa komið.

Það sem einkum og sér í lagi vekur athygli er hversu mikið hlutabréf í einstökum bönkum sem seld hafa verið hafa hækkað mikið skömmu eftir að salan fór fram. Mest er þetta áberandi í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þar sem hækkun hefur verið um 50% á mjög skömmum tíma. Sama hefur líka verið í Búnaðarbankanum þar sem hlutabréf hafa hækkað um 15% í verði á mjög skömmum tíma.

Þetta leiðir auðvitað hugann að því hvort menn hafa ekki gætt sín á að huga að verðlagningu þessara hlutabréfa. Hver er skýringin á því að þau hækka svona mikið mjög skömmu eftir að ákveðið er að selja þau? Ég skil vel að mönnum sé misboðið eins og t.d. gerist í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þar sem einstakir starfsmenn bankans kaupa hlutabréf fyrir háar fjárhæðir og auðgast mjög mikið á mjög skömmum tíma. Síðan ákveði bankinn að greiða út arð í peningum fyrir háa fjárhæð eða á annan milljarð kr. og þannig fá starfsmennirnir pening til að standa undir þeim kaupum sem þeir hafa ráðist í. Þetta eru hlutir sem við þurfum að skoða. Við þurfum að gæta að því að við stígum vel og varlega til jarðar og seljum eignir ríkisins á sannvirði á hverjum tíma.