Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:51:41 (4125)

2000-02-09 13:51:41# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Kannski er að koma á daginn að sú margrómaða ,,háeffun`` ríkisbankanna og einkavæðing í fjármálageiranum, sem átti að leysa allan vanda þannig að helst var á máli manna að heyra að hann mundi gufa upp eins og dögg fyrir sólu þegar hinn vondi ríkisrekstur yrði aflagður, hafi ekki öll gengið eftir og ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns í þeim efnum.

Það er enginn vafi á því að verulega skortir á að hinn svokallaði, liggur mér við að segja, verðbréfamarkaður á Íslandi sé það þroskaður að hægt sé að treysta því að þau siðalögmál og þær verklagsreglur, sem verður að hafa í heiðri eigi almenningur að treysta þessum stofnunum fyrir fjármunum sínum, séu hafðar í heiðri. Það mun koma þeim stofnunum sjálfum í koll fyrr eða síðar að grafa undan eigin trausti með þeim hætti sem nú virðist hafa verið gert á síðustu missirum. Siðareglur, verkfallsreglur og lög koma fyrir lítið eins og hæstv. viðskrh. reyndar kom inn á ef hugarfarið er að allir, þar með taldar fjármálastofnanirnar sjálfar og starfsmenn þeirra skuli spila með í þessu lottói í eigin ágóðaskyni og slík vanþroskamerki, herra forseti, hringja viðvörunarbjöllum. Ég minni þar t.d. á mikilvægi þess að tryggja dreifða eignaraðild í slíkum stofnunum þannig að einstakir aðilar fái þar ekki undirtökin.

Kaup starfsmanna fjármálastofnana á bréfum í eigin ágóðaskyni hafa verið mjög til umræðu að undanförnu. En ég tel, herra forseti, að það sé ekki síður ástæða til að athuga kaup fjármálastofnananna sjálfra fyrir eigin reikning. Það eru fjölmörg dæmi um það frá undanförnum mánuðum að menn hafa markvisst keypt upp gengi í fyrirtækjum, jafnvel hafa viðskiptabankarnir spilað þannig með gengi í fyrirtækjum sem eru í viðskiptum hjá þeim. Og er það verjandi, herra forseti, að takmarka þá ekki a.m.k. verulega ef ekki banna að einhverju leyti svigrúm þessara stofnana til að eiga slík viðskipti á sama tíma og þau bjóða almenningi að ávaxta þeirra fé að þessu leyti. Það fer ekki saman ef menn kunna ekki fótum sínum forráð í þeim efnum, herra forseti.