Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:54:03 (4126)

2000-02-09 13:54:03# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Allur atvinnurekstur sem á í samkeppni þarf á trausti að halda, sérstaklega fjármálafyrirtæki. Þau lifa á trausti. Viðskiptavinurinn þarf að treysta því að hann fái sömu afgreiðslu og aðrir. Þetta sjá fyrirtæki í auknum mæli og setja sér siðareglur. Þau segja: Við erum heiðarleg, við erum sanngjörn, við erum framsækin o.s.frv. Það má nánast flokka traust og virðingu fyrirtækja sem eign.

Herra forseti. Miklar breytingar hafa átt sér stað og starfsmenn og stjórnir fjármálafyrirtækja mæta nýjum siðferðilegum vandamálum nærri daglega. Mikil breyting hefur orðið frá því sem áður var. Áður var það þannig að lántakendum var mismunað meðvitað og þótti engum merkilegt. Fólki var mismunað meðvitað og engar umræður voru um það á Alþingi. En nú er orðin sú breyting á að búið er að hlutafjárvæða og einkavæða hluta af þessum markaði og þá kemur upp mjög skemmtileg umræða um siðferði.

Starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja þurfa stöðugt að spyrja sig hvort þeir séu að gera rétt eða rangt. Þeir þurfa að setja sér siðareglur sjálfir og endurskoða þær oft í ljósi breytinga. Ég vil nefna það hér að hugtakið innherji er afskaplega erfitt viðureignar. T.d. geta spilafélagar og aðrir slíkir orðið innherjar en eru það ekki samkvæmt lögunum. Reglur að ofan eru góðar og gildar en geta aldrei komið í stað innri siðareglna sem fyrirtækin setja starfsmönnum sínum og vanda sig við að framfylgja. Ef þau gera það ekki, missa þau viðskiptavini sína.