Viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 13:59:47 (4129)

2000-02-09 13:59:47# 125. lþ. 59.94 fundur 300#B viðskiptasiðferði og verklagsreglur á fjármálamarkaði# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör áðan og jafnframt taka undir þau orð sem fallið hafa í hennar garð varðandi viðbrögð þegar uppvíst var fyrir ekki löngu síðan að nokkur fyrirtæki á okkar viðkvæma fjármálamarkaði hefðu brotið þær verklagsreglur sem þau höfðu sett sér. Þau viðbrögð voru hárrétt og einnig það sem kom fram í svörum ráðherra við fyrri hluta þeirra spurninga sem ég lagði fyrir hana.

[14:00]

Ráðherrann sagði að mikil nauðsyn væri á réttu hugarfari og ég tek undir að það er nauðsynlegt að hugarfar stjórnenda fyrirtækja á fjármálamarkaðnum sé rétt. Hins vegar vil ég benda á það að skýrar siðareglur eins og þær sem Samfylkingin hefur lagt til að verði settar fyrir þennan markað munu hjálpa þeim sem búa ekki við skýra siðferðisvitund til þess að færast yfir á rétta braut. Þess vegna beini ég því nú eindregið til hæstv. ráðherra að hún leggi lið þeirri þáltill. sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt undir forustu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, að hún verði samþykkt og í framhaldi af því verði sett siðanefnd sem aðilar þessa markaðar eigi aðild að. (Landbrh.: Hverjir eiga að vera í henni?) Við munum örugglega finna út úr því, hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson. En það er nauðsynlegt að það séu þeir aðilar sem eiga hlut að máli hvað þennan markað varðar. Ég held að með samþykkt tillögu okkar um setningu siðareglna og með því að til yrði slík nefnd sem færi yfir ýmis álitamál værum við mun betur sett en við erum í dag. Það er mjög nauðsynlegt að það sé traust á þessum markaði og þessum fyrirtækjum. Það er alveg hárrétt, þau lifa á því trausti.

Því miður hafa sum þeirra brugðist því illilega á undanförnum vikum. Á því verður að taka, virðulegi forseti.