Gróðurvinjar á hálendinu

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:14:41 (4134)

2000-02-09 14:14:41# 125. lþ. 60.8 fundur 304. mál: #A gróðurvinjar á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. umhvrh. hvort hún hyggist beita sér fyrir því að gróðurvinjum á hálendinu verði bætt við þær landslagsgerðir sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd.

Þessi lög voru samþykkt á síðasta vori, herra forseti, og þar er í fyrsta skipti fjallað um að sérstök vernd skuli gilda og ná yfir ákveðnar landslagsgerðir. Þar er m.a. talað um eldvörp, gervigíga og eldhraun, stöðuvötn og tjarnir, mýrar og flóa, fossa, hveri og aðrar heitar uppsprettur. Mér þykir hins vegar, herra forseti, að inn í þessa upptalningu vanti gróðurvinjar á hálendinu.

Þær eru margar hverjar mikilvægar, að sumu leyti einstakar, og það er nauðsynlegt að vernda þær. Frá sjónarhóli líf- og vistfræðinnar hafa þær mikið gildi. Gróðurvinjarnar gegna hlutverki fræbanka og þegar skilyrði til gróðurfars breytast, t.d. með breyttu loftslagi eða með minna beitar\-álagi, eru það fræin úr fræbanka gróðurvinjanna sem aðstoða við uppgræðsluna. Mikilvægt er að undirstrika að þessar gróðurvinjar eru leifar miklu víðfeðmari gróðurlendna sem hafa látið undan síga. Þær eru ákaflega viðkvæmar fyrir hvers kyns raski og nýtingu og því tel ég nauðsynlegt að hæstv. ráðherra hlutist til um málið.

Ég bendi á að á nýafstöðnu náttúruverndarþingi kom þetta mál til umfjöllunar og þar var einróma samþykkt að beina þessu til ráðherrans. Ég hef orðið þess áskynja í kjölfar þingsins að hæstv. ráðherra telur að nauðsynlegt sé að ná góðu og miklu sambandi við Náttúruverndarráð. Þess vegna tel ég að einboðið væri að hæstv. ráðherra tæki undir þetta og lýsti því yfir hér að hún hyggist beita sér fyrir því að lögunum verði breytt með þessum hætti. Ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að beita sér fyrir því mun Samfylkingin gera það.