Gróðurvinjar á hálendinu

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:23:26 (4138)

2000-02-09 14:23:26# 125. lþ. 60.8 fundur 304. mál: #A gróðurvinjar á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það er ekkert lát á algjörum skilningsskorti þessa hæstv. ráðherra gagnvart náttúruvernd í landinu. Ég hefði nú talið að þessi hæstv. ráðherra þyrfti að hysja upp um sig buxurnar í þeim efnum eftir þau áföll sem hún hefur orðið fyrir í samskiptum sínum við náttúruverndarsinna. Ég bendi á þann dóm sem hæstv. ráðherra fékk á nýafstöðnu náttúruverndarþingi. Að koma hingað og segja í löngu máli: Nei, hún hafði ekki einu sinni hugsað sér að huga að þessu máli.

Í máli hennar kemur tvennt fram. Hún telur að flestar gróðurvinjarnar á hálendinu falli undir núgildandi lög. Ég er henni ósammála um það. En það eitt að segja ,,flestar`` þykir mér benda til þess að það eru a.m.k. einhverjar gróðurvinjar sem ekki falla undir það. Allar gróðurvinjarnar sem einhverju máli skipta, sem ná yfir einhver flæmi á hálendinu, sæta núna árásum og atlögum Landsvirkjunar, nánast hver og ein einasta. Mál er til komið að þessi ráðherra standi upp og sýni hvar hún stendur í þessu máli. Ætlar umhvrh. virkilega að fylkja sér með Landsvirkjun í hverju málinu á fætur öðru?

Ef ég hefði lengri tíma hérna, herra forseti, hefði ég viljað ræða við hæstv. ráðherra um afstöðuna til Þjórsárvera af því að hún nefndi þau hér í umræðunni. En við gerum það víst við annað tækifæri.

Ég vil að það komi alveg skýrt fram, herra forseti, að ég tel að hæstv. ráðherra sé að bregðast skyldum sínum sem umhvrh. Það liggur fyrir að allt það sem lýtur að votlendi og vernd votlendis af hálfu umhvrn. síðustu árin er í skötulíki. Það liggur fyrir að ekki er búið að kortleggja votlendi landsins eins og ber að gera fyrir tiltekinn tíma samkvæmt Ramsar-samningnum. Það liggur einnig fyrir að stofnanir ráðuneytisins hafa ekki tæmandi yfirlit yfir þessar gróðurvinjar og það kom glögglega fram máli hæstv. ráðherra að hún gerir sér ekki heldur grein fyrir hvað felst í hugtakinu ,,gróðurvin á hálendinu``.

Þetta finnst mér vera alvarlegt mál, herra forseti. Ég vil bara nefna eitt: Það er ekki langur tími síðan að Orravatnsrústir voru nánast gjöreyðilagðar. Það var bara fyrir atbeina eins einstaks vísindamanns að tókst að bjarga þeim. Og það eru ábyggilega fleiri ... (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið, en mér rennur auðvitað í skap yfir svona svari.