Gróðurvinjar á hálendinu

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:25:50 (4139)

2000-02-09 14:25:50# 125. lþ. 60.8 fundur 304. mál: #A gróðurvinjar á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á því hví hv. þm. þurfa að æsa sig svona í fyrirspurnatíma og það er af og frá að hér séu einhverjir að bregðast skyldum sínum. Hér er verið að reyna að svara fyrirspurn eftir besta mætti.

Það er alveg ljóst, eins og ég sagði í fyrra svari mínu, að hinar stærri gróðurvinjar á hálendinu falla undir 37. gr. náttúruverndarlaganna samkvæmt upplýsingum mínum frá Náttúruvernd ríkisins. Ég efast ekki um að þær upplýsingar séu réttar.

Menn þurfa því ekki að hafa þær áhyggjur sem hér eru látnar í ljós að mínu mati. (Gripið fram í.) Flestar gróðurvinjar. Ef hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hefur heyrst að ég segði ,,allar`` er það ekki rétt. Flestar gróðurvinjar á hálendinu falla undir 37. gr. náttúruverndarlaga eins og hún hljómar í dag. Þar stendur að mýrar og flóar stærri en þrír hektarar falli undir þessar skilgreiningar. Það eru gróðurvinjarnar okkar á hálendinu flestar, ekki hinar smærri. Ástæða væri til að hafa áhyggjur af hinum smærri, en tekið er á þeim í gegnum náttúruverndaráætlun sem á að leggja fyrir Alþingi árið 2002 og Náttúruvernd ríkisins er einmitt í viðræðum við Landgræðsluna og Skógræktina varðandi þessar smærri gróðurvinjar.

Engin ástæða er til þess að fara upp með slíkum hætti eins og hér var gert vegna virkjanamálanna. Við erum að vinna og hefja umfangsmikla vinnu við rammaáætlunina. Það er alveg ljóst líka að ef á að nýta þau svæði þar sem hinar stærri gróðurvinjar eru uppi á hálendinu í dag undir t.d. miðlunarlón er slíkt ekki gert nema að undangengnu umhverfismati þannig að þau mál fari algjörlega í þann farveg að menn muni skoða gróðurvinjarnar í gegnum mat. Því er engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu máli og ég mun ekki beita mér sérstaklega fyrir því að þær verði teknar inn í náttúruverndarlögin.