Smíði skipa

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:42:36 (4145)

2000-02-09 14:42:36# 125. lþ. 60.4 fundur 178. mál: #A smíði skipa# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á þessu ári hafa tíu skip lengri en 15 m verið í smíðum fyrir Íslendinga hér heima. Þrjú þeirra eru þegar tilbúin og sjö eru í smíðum. Eitt þeirra er að fullu smíðað hér heima en það er ferja sem Stálsmiðjan smíðar. Bolir allra hinna skipanna níu eru smíðaðir í Póllandi. En skipin eru að öðru leyti fullsmíðuð hér. Nú eru 19 skip í smíðum fyrir Íslendinga í útlöndum. Flest eru í smíðum í Kína eða 14 talsins, fjögur skip eru í smíðum í Chile og eitt í Póllandi.

Á þessu tímabili, frá 1995--1998, voru tíu skip í smíðum fyrir Íslendinga. Hér innan lands var helmingurinn eða fimm skip smíðaður og jafnmörg skip erlendis. Tvö þeirra voru smíðuð í Noregi, eitt í Litháen, eitt í Hollandi og eitt í Póllandi.

Spurt er, með leyfi forseta:

,,Hefur eða hafði Siglingastofnun Íslands eftirlit með smíði skipa sem spurt er um í 1. og 2. lið, og þá hve mörgum? Fram komi skipting eftir löndum varðandi þau skip sem smíðuð voru erlendis.``

Svarið er: Lítum fyrst á þau skip sem smíðuð hafa verið hér á landi. Siglingastofnun Íslands hefur að öllu leyti haft eftirlit með smíði þeirra fimm skipa sem smíðuð voru innan lands á árunum 1995--1998 og fimm af þeim tíu skipum sem hafa verið í smíði hér á landi á þessu ári. Hin skipin fimm sem verið hafa í smíðum hér á landi á þessu ári hafa lotið eftirliti flokkunarfélaga en öryggisbúnaður verið undir eftirliti Siglingastofnunar Íslands.

Hvað varðar skip sem smíðuð hafa verið í útlöndum þá voru öll skipin sem smíðuð voru árin 1995--1998 undir eftirliti flokkunarfélaga en öryggisbúnaður undir eftirliti Siglingastofnunar Íslands. Skipin sem verið hafa í smíðum í útlöndum á þessu ári hafa einnig verið undir eftirliti flokkunarfélaga en samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun Íslands sem hefur veitt allar þessar tölulegu upplýsingar liggur ekki fyrir með hvaða hætti skoðun á björgunar- og öryggisbúnaði verður.

Þó hér sé sagt að flokkunarfélag hafi eftirlit með smíði skipa er nauðsynlegt að hafa í huga að Siglingastofnun Íslands fer yfir allar teikningar og tæknilýsingar af skipum til að tryggja að íslenskum reglum sé framfylgt.

[14:45]

Auk þess er um að ræða ýmis atriði sem flokkunarfélög vísa beinlínis til úrskurðar stofnunarinnar enda vinna flokkunarfélög hér í umboði samgrn. Þar með er unnt að fela þeim eftirlit með björgunar- og öryggisbúnaði samkvæmt nánari fyrirmælum stofnunarinnar. Ég lít svo á að ég hafi svarað fyrirspurninni.