Nálgunarbann

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:03:40 (4154)

2000-02-09 15:03:40# 125. lþ. 60.6 fundur 282. mál: #A nálgunarbann# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu um afbrot og ofbeldi hefur oft komið fram að huga þurfi sérstaklega að réttarstöðu fórnarlambanna og möguleikum þeirra til að forðast áreitni eða ágang þess ógæfufólks sem beitt hefur það ofríki eða ofsóknum. Þetta hefur ekki síst verið rætt þegar um heimilisofbeldi hefur verið að ræða eða mál sem varðar umgengni við börn og unglinga.

Flestum er einnig kunnugt um þann vanda sem konur standa oft frammi fyrir í þessum efnum eins og margsinnis hefur komið fram, t.d. þegar fjallað hefur verið um starfsemi Kvennaathvarfsins. Hugmyndir um að vernda brotaþola með lögfestum ákvæðum um bann við því að sá sem beitir hann ofríki nálgist hann á nokkurn hátt hafa því oft verið ræddar, en slík ákvæði er víða að finna í lögum í öðrum löndum, svo sem bæði í sænskum lögum og í norskum lögum.

Árið 1993 skipaði þáv. dómsmrh. nefnd sem m.a. hafði það hlutverk að huga sérstaklega að réttarstöðu brotaþola og gera tillögur til úrbóta. Nefndin hóf vinnu sína á því að kynna sér norrænar reglur um ríkisábyrgð á greiðslu skaðabóta til þolenda ofbeldis og skilaði frv. um það efni árið 1995 og það frv. varð síðan að lögum árið eftir, árið 1996. Eftir nokkurt hlé sem varð á störfum þeirrar nefndar þegar vinnu við frv. var lokið skilaði hún ítarlegri skýrslu í febrúar 1998. Þó margar þeirra ábendinga nefndarinnar sem fram koma í skýrslunni og varða réttarstöðu þolenda sé nú að finna í lögum um meðferð opinberra mála er nauðsynlegt að fram komi að nefndin hafði fleiri mikilvægar tillögur sem ekki eru komnar fram í lögum. Svo er um tillögur nefndarinnar um að lögfest verði ákvæði um nálgunarbann.

Nefnd dómsmrh., sem áður er getið, lagði til að lögfest yrði ákvæði um nálgunarbann ef það felur í sér að hægt verði að banna manni að dvelja á ákveðnum stað, fylgja, heimsækja eða á annan hátt ofsækja einstakling með bréfum, símhringingum eða öðru ónæði. Nefndin taldi að ákvæði um nálgunarbann gæti átt samleið með ákvæðum um þvingunarúrræði í lögum um meðferð opinberra mála.

Fleiri stjórnskipaðar nefndir hafa fjallað um lagaákvæðin um nálgunarbann og lagt til að slík ákvæði verði tekin í íslensk lög. Dómsmrh. skipaði því árið 1997 nefnd sem ætlað var að huga sérstaklega að úrbótum varðandi heimilisofbeldi. Nefndin skilaði áliti í apríl 1998 og lagði í skýrslu sinni til að ákvæði um nálgunarbann yrði tekið upp í lög um meðferð opinberra mála. Ákvæði um nálgunarbann getur nýst þolendum kynferðisofbeldis, t.d. nauðgunarþola, sem hefur kært og ofbeldismaðurinn lætur ekki í friði. Sama gildir þegar börn eiga í hlut og loks er að geta um konur sem hafa flúið heimili sín vegna barsmíða og ofbeldis. Því er þeirri spurningu beint til hæstv. dómsmrh. hvenær þess sé að vænta að lagaákvæði um nálgunarbann verði sett í íslensk lög eins og a.m.k. tvær stjórnskipaðar nefndir hafa gert tillögur um.