Nálgunarbann

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:06:59 (4155)

2000-02-09 15:06:59# 125. lþ. 60.6 fundur 282. mál: #A nálgunarbann# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Í fyrirspurn þessari er spurt hvenær þess sé að vænta að sett verði lagaákvæði um nálgunarbann, sbr. tillögur tveggja nefnda á vegum dómsmrn. þar um, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um í fyrirspurn sinni.

Eins og fram hefur komið hafa nefndir sem störfuðu á vegum dómsmrn. lagt til að lögfest verði ítarlegri ákvæði um nálgunarbann. Annars vegar var um að ræða nefnd sem skipuð var til að fjalla um stöðu brotaþola og hins vegar þrjár nefndir sem skipaðar voru til að fjalla um heimilisofbeldi, en skýrslum allra þessara nefnda var dreift á Alþingi vorið 1998. Ýmsar lagabreytingar hafa síðustu árin verið gerðar sem miða að því að bæta stöðu þolenda afbrota og má þar nefna breytingar sem gerðar voru á lögum um meðferð opinberra mála á sl. ári og voru að nokkru leyti byggðar á niðurstöðum fyrrnefndrar skýrslu dómsmrh. um stöðu brotaþola. Helsta nýmælið með þeim er að nú er heimilt í ákveðnum tilvikum að skipa brotaþola réttargæslumann.

Enn er unnið að lagaumbótum í þágu brotaþola. Um þessar mundir er verið að taka saman frv. í dómsmrn. um nálgunarbann og stefni ég að því að leggja það frv. fram á þessu þingi.

Á Norðurlöndunum, m.a. í Svíþjóð og Noregi, eru í gildi ákvæði um nálgunarbann. Ég tel brýnt að löggjöf um nálgunarbann verði samþykkt hér á þinginu. Það er vissulega rík þörf á virku úrræði fyrir einstaklinga sem verða fyrir ofsóknum og hefur nálgunarbann víða reynst vel í því augnamiði.

Eins og hv. þm. benti á hefur verið lagt til að slíkt ákvæði feli í sér heimild til þess að banna manni að dvelja á ákveðnum stað, fylgja, heimsækja eða á annan hátt ofsækja annan mann með bréfum, símhringingum eða ónáða með öðrum hætti. Sjálfgefið skilyrði slíks banns er að hætta sé á að sá sem banninu er beint gegn skerði frið og frelsi þess sem bannið á að vernda. Tilkoma slíks ákvæðis fæli í sér mikilvæga vernd gagnvart hvers kyns ofsóknum sem einstaklingar geta orðið fyrir, en er ekki síst hugsað til verndar þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi á heimili sínu og þurfa að þola ofsóknir af hálfu brotamanns, jafnvel löngu eftir skilnað eða sambúðarslit sem er því miður ekki óþekkt vandamál.