Leiðbeiningar- og tilkynningarskylda fyrir brotaþola

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:10:35 (4157)

2000-02-09 15:10:35# 125. lþ. 60.7 fundur 283. mál: #A leiðbeiningar- og tilkynningarskylda fyrir brotaþola# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. 44. gr. í lögum um meðferð opinberra mála fjallar um tilkynningarskyldu lögreglu og ríkissaksóknara í ofbeldismálum gagnvart þolendum þeirra. Það er mikils virði að reglugerð um þetta efni, byggð á ofangreindri grein, verði sett sem fyrst þar sem hagsmunir brotaþola varðandi það að fá að fylgjast með máli sem hann varðar eru óumdeildir.

Eftir breytingu sem gerð var á lögum um meðferð opinberra mála í fyrra hljóðar 44. gr. laganna svo, með leyfi forseta:

,,1. Lögreglu er skylt, eftir því sem við á, að leiðbeina brotaþola um réttindi hans lögum samkvæmt.

2. Nú liggur fyrir hver brotaþoli er og skal þá tilkynna honum ef rannsókn máls er hætt eða það fellt niður með öðrum hætti án tillits til þess hvort hann hefur kært brotið. Ber að rökstyðja ákvörðunina ef brotaþoli krefst þess. Jafnframt skal lögregla benda brotaþola á að hann geti borið ákvörðun hennar um að hætta rannsókn undir ríkissaksóknara skv. 1. mgr. 76. gr.

3. Ef ákæra er gefin út skal ákærandi tilkynna brotaþola það þegar hún hefur verið birt. Jafnframt ber ákæranda að tilkynna brotaþola um niðurstöðu dóms, ef því er að skipta, eða afdrif máls að öðru leyti, svo sem ef málinu eða einkaréttarkröfu hans er vísað frá dómi.

4. Dómsmrh. setur í reglugerð nánari ákvæði um leiðbeiningar- og tilkynningarskyldu samkvæmt þessari grein.``

Í greinargerð með frv. til laga um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála kemur fram að meginmarkmið þess hafi verið að styrkja réttarstöðu brotaþola, þ.e. þeirra einstaklinga sem hafa verið þolendur afbrota eða hefur verið gert mein, en sérstaklega var tilgangurinn að bæta réttarstöðu þeirra sem beittir hafa verið ofbeldi í einhverri mynd. Þessu hugarfari við breytingar á lögunum ber að fagna. Þolendur afbrota eiga sérstakra hagsmuna að gæta umfram aðra þótt þeir séu ekki beinir aðilar að sakamáli á sama hátt og ákæruvaldið og hinn ákærði. Þetta er t.d. sérstaklega áríðandi í ofbeldismálum, svo sem þegar um er að ræða kynferðislegt ofbeldi. Þó að erfitt sé að gera sér í hugarlund skelfingu, ótta og angist þeirra sem fyrir slíku ofbeldi hafa orðið þarf ekki mikið hugarflug til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að brotaþola sé á hverjum tíma ljóst hver staða máls er þar sem hann hefur átt hlut að máli, t.d. hvort rannsókn þess hefur verið hætt eða hún felld niður, hvort ákæra hefur verið gefin út eða dómur upp kveðinn. Brotaþoli kann einnig að þurfa á leiðbeiningum að halda eða öðrum stuðningi og má hér vísa til þess sem sagt var fyrr í dag um nálgunarbann og mikilvægi þess að ákvæði um nálgunarbann verði sett í íslensk lög.

Eins og fram kemur í áðurnefndri lagagrein er kveðið á um að dómsmrh. skuli setja í reglugerð nánari ákvæði um leiðbeiningar- og tilkynningarskyldu til brotaþola. Því er sú spurning lögð fyrir hæstv. dómsmrh. hvenær sé að vænta reglugerðar um leiðbeiningar- og tilkynningarskyldu lögreglu og ríkissaksóknara um gang mála fyrir þolendur kynferðisofbeldis eins og kveðið er á um að setja skuli í lögum um meðferð opinberra mála.