Fæðingarorlof

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:17:02 (4160)

2000-02-09 15:17:02# 125. lþ. 60.2 fundur 153. mál: #A fæðingarorlof# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JHall
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fylgja úr hlaði fyrirspurn til hæstv. fjmrh. á þskj. 174 um jöfnun réttar mæðra og feðra til töku fæðingarorlofs. Fyrirspurnin er lögð fram af hv. 7. þm. Reykn., Páli Magnússyni, er sæti tók á Alþingi sem varamaður á yfirstandandi þingi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Jöfn tækifæri karla og kvenna verði tryggð í hvívetna svo sem með lengingu fæðingarorlofs og jöfnun réttar mæðra og feðra til töku þess.``

Virðulegi forseti. Ljóst er að aukin þátttaka karla í heimilis- og uppeldisstörfum er lykilatriði í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Karlanefnd Jafnréttisráðs hefur lagt áherslu á þetta og sagt reglur um fæðingarorlof þar skipta miklu. Það þarf að lengja fæðingarorlofið og hafa hugmyndir um 12 mánaða orlof verið settar fram, m.a. af karlanefndinni. Þá verða fjórir mánuðir bundnir við föður, fjórir mánuðir bundnir móður en fjórum mánuðum geta foreldrar skipt eftir hentugleikum.

Í dag fá feður aðeins tveggja vikna orlof á launum við fæðingu barns. Því spyr ég hæstv. fjmrh. í ljósi þeirra orða sem ég vitnaði í úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar:

Hvernig og hvenær hyggst ríkisstjórnin ná markmiðum sínum, sem lýst er í stjórnarsáttmála, um lengingu fæðingarorlofs og jöfnun réttar mæðra og feðra til að taka það?