Endurskoðun skattalöggjafarinnar

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:36:08 (4172)

2000-02-09 15:36:08# 125. lþ. 60.3 fundur 157. mál: #A endurskoðun skattalöggjafarinnar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru ýmis atriði sem lúta að skattamálum og að sjálfsögðu er unnið að þeim öllum. Þegar er búið að lögbinda til að mynda eitt ákvæði úr stefnuyfirlýsingunni sem lýtur að millifæranlegum persónuafslætti maka og að öðrum atriðum verður unnið jafnt og þétt. Hins vegar eru þetta, eins og margoft hefur komið fram, markmið sem stjórnarflokkarnir ætla að ná á kjörtímabilinu og ekki hægt að tímasetja einstök atriði önnur með neinni nákvæmni.

Í því ákvæði stefnuyfirlýsingarinnar, sem vitnað er til í hinni prentuðu fyrirspurn segir m.a. að endurskoða skuli skattalöggjöfina að því er varðar eignarskatt, að álagning eignarskatts verði samræmd og skatthlutföll lækkuð, að skattlagningu fyrirtækja verði breytt til að gera hana einfaldari til að tryggja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Hugað verði að því hvernig skattareglur virki hvetjandi til rannsókna, þróunar og almennrar nýsköpunar o.s.frv.

Þetta eru atriði sem eru öll í vinnslu alveg eins og önnur þau atriði sem hv. þm. vék að. En venjan er nú sú að skattbreytingar eru gerðar á haustþingi í tengslum við afgreiðslu fjárlaga þegar menn hafa heildardæmið fyrir sér, tekjur og gjöld ríkisins, en þó með þeim undantekningum ef sérstakar aðstæður krefjast eða nauðsyn ber við að þá er að sjálfsögðu hægt að breyta lögum um skatta eða gjöld á öðrum tímum en þessum.

Þessi mál eru því til úrvinnslu og ég get ekki fullyrt með neinni nákvæmni hvað verður næsta skrefið. Við höfum verið að mæla fyrir alls kyns umbótamálum á þessu sviði sem lúta að gjaldtöku ríkisins til þess að samræma öll gjaldtökuákvæði í lögum ákvæðum stjórnarskrárinnar frá 1995, ákvæðum sem þá komu um bann við að framselja skattlagningarheimildir til ráðherra. Von er á fleiri slíkum málum og alhliða breytingum af því tagi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en ég hygg að þingheimur muni á næstu mánuðum og missirum verða áþreifanlega var við hvernig þessum stefnuákvæðum verður hrint í framkvæmd.