Endurskoðun skattalöggjafarinnar

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:39:04 (4173)

2000-02-09 15:39:04# 125. lþ. 60.3 fundur 157. mál: #A endurskoðun skattalöggjafarinnar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er athyglisvert að hér er fulltrúi Framsfl. að bera formlega fram fyrirspurn til fulltrúa Sjálfstfl. varðandi efndir á kosningaloforðum Framsóknar. Rétt er að benda á að Framsfl. hefur átt þess kost að standa við loforð sín í skattamálum en látið hjá líða, því með samþykkt fjárlaga ársins 2000 var Framsókn ásamt Sjálfstfl. í raun að samþykkja að skattbyrði launafólks yrði aukin. Skattahækkunin er framkvæmd með því að láta skattleysismörkin hækka minna en launin og þegar skattleysismörkin síga þá eykst ójöfnuðurinn. Þannig var tekin ákvörðun um að ráðstöfunartekjur hálaunafólks hækkuðu meira en láglaunafólks. Það gerist, herra forseti, þegar skattleysismörkin hækka einungis um 2,5% en laun um 5% eins og gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaganna.

Þetta voru athyglisverð skilaboð til verkalýðshreyfingarinnar, herra forseti, nú þegar kjarasamningar á almenna markaðnum fara í hönd en ekki síður athyglisverð efnd kosningaloforða Framsfl.