Endurskoðun skattalöggjafarinnar

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 15:43:47 (4177)

2000-02-09 15:43:47# 125. lþ. 60.3 fundur 157. mál: #A endurskoðun skattalöggjafarinnar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er hreyft við mjög mikilvægu máli varðandi endurskoðun skattalöggjafarinnar. Það er áhyggjuefni hver þróunin hefur orðið í þeim efnum á síðustu árum. Eða skyldu menn hafa tekið eftir því að í fjárlögum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs til barnabóta verði 320 millj. kr. lægra en það var á síðasta ári? Þessu veldur að viðmiðunarmörk barnabótanna eru ekki látin fylgja almennri launaþróun í landinu.

Hið sama hefur verið uppi á teningnum varðandi skattleysismörk, ekki aðeins á þessu ári, þar sem gert er ráð fyrir 2,5% hækkun á móti 5% launahækkun heldur hefur þessi þróun gengið eftir undanfarin ár og valdið því að skattbyrðum hefur verið hlaðið á láglaunafólk og millitekjuhópa. Það er kominn tími til að snúið verði af þessari óheillabraut.