Lausafjárkaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 11:19:37 (4185)

2000-02-10 11:19:37# 125. lþ. 61.1 fundur 110. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv. 50/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Að nokkru leyti hefur verið tekið tillit til ábendinga Neytendasamtakanna en ekki að fullu og öllu og við munum fara ítarlega yfir það í hv. efh.- og viðskn.

Ég heyri að það fær sæmilegar undirtektir hjá hæstv. ráðherra að stefna að heildarlöggjöf um málefni neytenda og þróa okkur í þá átt og ég get alveg verið sammála hæstv. ráðherra um það að það frv. sem við ræðum nú er áfangi á þeirri leið.

Samkeppnisstofnun sem hæstv. ráðherra nefndi er vissulega mjög mikilvæg til að tryggja eðlilega samkeppni og hagsmuni neytenda en ég held að Samkeppnisstofnun geti aldrei komið í stað umboðsmanns neytenda sem hefði þar miklu víðtækara hlutverk.

Hæstv. ráðherra segist vera íhaldssöm gagnvart fjölgun umboðsmanna. Út af fyrir sig eru á því ýmsar hliðar sem ég get verið sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að slíkt þurfi að ræða í víðu samhengi. Engu að síður held ég að við þurfum að taka þá umræðu með einum eða öðrum hætti.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra úr því að það fær ekki undirtektir að koma á fót umboðsmanni neytenda hvort hún teldi þá ekki, til að mynda í tengslum við þetta frv., rétt og eðlilegt að koma á ákveðnum úrskurðarnefndum í málefnum neytenda eins og lagt var til í þeirri tillögu sem ég nefndi. Þar var rætt um tvær nefndir sem fjalla áttu um ágreiningsmál annars vegar neytenda og opinberra þjónustufyrirtækja og hins vegar nefnd sem fjalla átti um ágreiningsmál neytenda og sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Ég er ekki endilega að tala um úrskurðarnefndirnar svona tvískiptar eins og hér er lagt til en ég held að við verðum að fikra okkur inn á þá braut að til sé ákveðin nefnd eða úrskurðaraðilar sem geta tekið afstöðu og fjallað um deilumál og úrskurðað í málefnum neytenda. Ég hef ekki farið svo ítarlega yfir þetta frv. að ég geti fullyrt að það finnist ekki í því frv. sem við fjöllum hér um að með einhverjum hætti sé tekið á því en ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki að það væri rétt og eðlilegt að skoða úrskurðarnefnd í málefnum neytenda í tengslum við það frv. sem hér er til umræðu.