Lausafjárkaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 11:23:04 (4187)

2000-02-10 11:23:04# 125. lþ. 61.1 fundur 110. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv. 50/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að afar þýðingarmikið sé að hægt sé að ná breiðri og góðri samstöðu um það mikilvæga frv. sem við fjöllum um hér og efh.- og viðskn. mun fá til meðferðar. Það hefur komið skýrt fram í máli mínu að ég tel að það sé mikið framfaraskref sem við stígum hér með samþykkt slíkrar löggjafar.

Ég skil mál hæstv. viðskrh. þannig að hún sé því alls ekki fráhverf að það mál sé skoðað að stofnaðar verði úrskurðarnefndir í málefnum neytenda. Ég mun a.m.k. beita mér fyrir því í efh.- og viðskn. að það mál fái nokkra umfjöllun þar og um það geti náðst samvinna. Ég óska eftir því að efh.- og viðskn. geti átt gott samstarf við viðskrn. og hæstv. ráðherra um að þróa mál svo að við getum stigið skref í þá átt að stofna til slíkrar úrskurðarnefndar í málefnum neytenda sem ég tel mjög brýnt vegna þess að aftur og aftur koma upp deilumál sem snerta neytendur með einum eða öðrum hætti. Ég held því að það sé mjög brýnt að slík nefnd sé fyrir hendi.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég lít á mál ráðherra með þeim hætti að hún sé reiðubúin til að skoða það mál með jákvæðu hugarfari.