Þjónustukaup

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 11:40:31 (4189)

2000-02-10 11:40:31# 125. lþ. 61.2 fundur 111. mál: #A þjónustukaup# frv. 42/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[11:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og það frv. sem við ræddum áðan er markmið þessa frv. að tryggja réttarstöðu neytenda og í þessu tilviki að auka vernd neytenda við kaup á þjónustu. Ég er sammála því að það er mjög æskilegt að þessi mál, frv. til laga um þjónustukaup, og það sem við ræddum áðan, um lausafjárkaup, fylgist að enda eru þessi mál mjög tengd þó út af fyrir sig væri hægt að afgreiða þau hvort í sínu lagi. Þetta frv. hefur eins og hið fyrra komið áður fyrir þingið og verið til umræðu í efh.- og viðskn. Einnig í þessu máli hef ég skoðað umsögn Neytendasamtakanna og finnst mér þar, líkt og í hinu málinu, koma fram afar þarfar ábendingar og tillögur sem eru þess virði að þær séu skoðaðar og teknar upp í frv. Nú veit ég ekki fremur en í hinu málinu, af því mér hefur ekki unnist tími til að bera þetta nákvæmlega saman, að hve miklu leyti hefur verið tekið tillit til ábendinga Neytendasamtakanna í þessu tilviki, en vil nefna tvö atriði af mörgum brtt. sem Neytendasamtökin lögðu til þegar þetta mál var til skoðunar fyrir tveimur árum og nefna sérstaklega þessar tillögur af því mér finnst þær athyglisverðar og að þær eigi heima í þessari löggjöf.

Í fyrsta lagi nefni ég tillögur eða athugasemdir Neytendasamtakanna þar sem þeir gera athugasemdir við 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. og segja, með leyfi forseta:

,,Neytendasamtökin leggja til að gildissvið þessa töluliðar verði rýmkað þannig að frv. taki til hvers konar ráðgjafarþjónustu en ekki einungis ráðgjafarþjónustu í tengslum við vinnu við fasteignir, vinnu vegna byggingarframkvæmda eða aðrar framkvæmdir á landi.``

Ég spyr hvort þetta hafi verið tekið upp og ef ekki hver er þá ástæða þess og hvort hæstv. ráðherra telji ekki brýnt að frv. taki til hvers konar ráðgjafarþjónustu en ekki einungis ráðgjafarþjónustu í tengslum við vinnu við fasteignir eða byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á landi eins og þar er sagt.

Einnig finnst mér afar athyglisverð tillaga sem fram kemur við 4. mgr. 17. gr., en Neytendasamtökin leggja til að bætt verði við 4. mgr. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Geti neytandi sýnt fram á að hann hafi ekki orðið gallans var eða mátt verða hans var innan tveggja ára frá afhendingu hinnar seldu þjónustu, heldur hann rétti til að bera gallann fyrir sig í eitt ár frá því hann varð gallans var, en þó ekki lengur en fimm ár frá því að þjónusta var innt af hendi.``

Ég held að þetta sé eðlilegt svigrúm sem þarf að vera þegar um er að ræða galla í seldri þjónustu og vildi gjarnan heyra álit ráðherrans á þessu ákvæði. Um önnur atriði sem Neytendasamtökin hafa gert athugasemdir við mun ég láta mér nægja að fara yfir í efh.- og viðskn.

En ég stóð aðallega upp til þess að ræða þann þátt í þessu frv. sem snertir vinnu við fasteignir, vinnu vegna byggingarframkvæmda eða aðrar framkvæmdir á landi, þ.e. 2. tölul. í 1. gr. I. kafla. En um þennan þátt segir í 1. gr.:

,,Í 2. tölul. er kveðið svo á að þjónusta sem felur í sér vinnu við fasteignir, byggingaframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á landi falli undir gildissvið frv. Vart er unnt að telja upp með tæmandi hætti þau tilvik sem fallið geta undir þennan lið. Nefna má þó að hvers kyns þjónusta, sem veitt er í tengslum við fasteignir, svo sem vegna pípulagna, raflagna, málningarvinnu, þakvinnu og annarrar þjónustu, hvort heldur sem er innan eða utan húss, fellur undir gildissvið frv. 2. tölul. kveði á um þjónustu sem feli í sér vinnu við fasteignir, byggingarframkvæmdir og aðrar framkvæmdir sem á landi falla undir gildissvið frv. Hið sama gildir um vinnu við nýbyggingar.`` Síðar segir um þessi ákvæði að þar sé um að ræða kaup á tiltekinni þjónustu og um vanefndir vegna galla fari eftir ákvæðum þessa frv.

[11:45]

Ég bið hæstv. ráðherra að taka sérstaklega eftir því er lýtur að V. kafla þegar um er að ræða að dráttur verði á að ljúka þjónustu og heimildir neytenda til að rifta samningi eða krefjast skaðabóta vegna vanefnda seljanda þjónustu samkvæmt samningi þeim sem þá verður lagður til grundvallar. Nú spyr ég um það sérstaklega vegna þess að ég tel mjög brýnt að styrkja mjög ákvæði í löggjöf um fasteignaviðskipti sem lýtur að ýmsum göllum sem í ljós koma eftir að kaup hafa verið gerð milli kaupenda og seljenda og hef reyndar beitt mér fyrir því hér á þingi og fékk á sínum tíma fyrir nokkrum árum samþykkta þáltill. á Alþingi þar að lútandi um kaup og sölu á fasteignum sem fól í sér endurskoðun á löggjöf um fasteignaviðskipti þar sem átti að kveða nánar á um og fara yfir þá viðskiptahætti sem í fasteignasölu gilda, svo sem um skyldur fasteignasalans gagnvart kaupendum og seljendum fasteigna, ábyrgð þá sem hvílir á sölu- og kaupaðilum í slíkum viðskiptum svo og um fasteignaviðskipti á byggingarstigi. Ég spyr hvort ákvæðin í þessari löggjöf taki til þeirra þátta sem ég nefndi og eru í þeirri þáltill. sem ég vitnaði í.

Ég rifja upp að fyrir skömmu, seint á síðasta ári, kom fram að töluvert mikið hefði verið um vanefndir við afhendingu á fasteignum hjá byggingaraðilum og engin skýr ákvæði væru um dagsektir eða önnur ákvæði sem styrktu stöðu fasteignakaupenda þegar um slíkar vanefndir væri að ræða. Hæstv. dómsmrh. kom inn í þá umræðu ef ég man rétt og sagðist mundu beita sér fyrir endurskoðun á ákvæðum laga um fasteignaviðskipti þar sem tekið væri á slíkum vanefndum. Því leikur mér hugur á að vita hvort þetta frv. skarist þá eitthvað á við löggjöf um fasteignaviðskipti og hvort slíkar vanefndir ættu þá frekar heima í þeirri löggjöf sem hæstv. dómsmrh. nefndi heldur en í þessari löggjöf. Ég spyr um það vegna þess að ég tók eftir því að þetta ákvæði nær til fasteigna og til vanefnda vegna galla er verið að tala um í þessu tilviki, en alla vega nær þetta til fasteignaviðskipta með ákveðnum hætti. Ég spyr því: Hvar liggja mörkin milli laga um fasteignaviðskipti og þau ákvæði sem þar lúta að ýmsu sem fram kemur í fasteignaviðskiptum og því sem kveðið er á um í þessu frv.? Ég geri ráð fyrir að ráðherrann hafi skýr svör við þessu. Mér er þetta ekki ljóst og vildi þess vegna gjarnan að ráðherrann færi aðeins yfir það þegar við ræðum þetta mál. Ég verð að segja að taki þetta frv. ekki á þeim þáttum sem lúta að vanefndum sem ég nefndi þá finnst mér að töluvert liggi á því að hæstv. dómsmrh. leggi fyrir þingið frv. til laga um breytingu á lögum um fasteignaviðskipti sem tekur á þessum málum, vegna þess að það er allt of algengt í fasteignaviðskiptum að um vanefndir sé að ræða og tjón fyrir þá sem eru að kaupa sér fasteignir af þeim sökum.

En Alþingi hefur raunverulega lýst vilja sínum til þess hvernig á þessu máli er tekið með þeirri þál. sem ég hef lýst, um kaup og sölu á fasteignum á sínum tíma og samþykkt var samhljóða hér á þinginu.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að fara ítarlegar yfir þetta mál en ég hef hér gert í örstuttu máli, en vildi samt spyrja í lokin að einu atriði sem ég hef velt fyrir mér af því hér er verið að treysta stöðu neytenda og auka vernd þeirra við kaup á þjónustu. Nú er það svo og við þekkjum það að ýmis þjónusta sem fólk kaupir sér fer fram í gegnum nótulaus viðskipti. Taka ákvæðin alveg til slíkrar þjónustu sem veitt er í kringum nótulaus viðskipti eða eru þau með einum eða öðrum hætti undanþegin þegar ekki er hægt að sýna fram á að slík viðskipti hafi átt sér stað með eðlilegum hætti milli þeirra sem veita þjónustuna og þeirra sem kaupa þjónustuna? Þetta teldi ég áhugavert að fá fram vegna þess að við erum alltaf að reyna að girða fyrir það að verið sé að nota nótulaus viðskipti milli kaupenda og seljenda þjónustu eða vöru. Að öðru leyti, herra forseti, þá er hið besta mál hér á ferðinni sem ég mun styðja og veita eins og hægt er brautargengi í efh.- og viðskn., en auðvitað er með þetta mál eins og önnur þó góð séu, að fara þarf náið yfir það og það mun efh.- viðskn. gera með það að leiðarljósi eins og er meginmarkmið þessa frv. að styrkja réttarstöðu neytenda í viðskiptum við kaup á þjónustu.