Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 12:25:00 (4199)

2000-02-10 12:25:00# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[12:25]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðdragandi þess að frv. þetta er lagt fram er umfjöllun um svokallað TETRA-farstöðvakerfi eða fjarskiptakerfi sem var í umræðunni fyrir um ári, það nær ekki ári miðað við þau erindi sem hafa verið send frá Landsvirkjun og ríkislögreglustjóra. En samkvæmt því var það þannig að embætti ríkislögreglustjóra ásamt Slökkviliði Reykjavíkur kannaði möguleikann á að koma upp fullkomnu stafrænu fjarskiptakerfi, byggðu á TETRA-staðli og, virðulegi forseti, ég ætla ekki að reyna að útskýra hvað það er. En núverandi fjarskiptakerfi þessara aðila er gamalt og úrelt og farið að bitna á aðgerðum.

Að mati slökkviliðsstjóra og ríkislögreglustjóra og reyndar fleiri aðila --- björgunarsveitirnar komu inn í þetta á einhverjum tímapunkti --- var talinn vænlegur kostur að fara í samstarf við Landsvirkjun þannig að Landsvirkjun notaði það kerfi sem hún á og rekur í dag, að það væri notað sem boðkerfi þar sem ekki þyrfti á nokkurn hátt að leggja nýtt heldur að nýta það kerfi sem Landsvirkjun hefði og ræki. Það er upphafið að því að Landsvirkjun sækir um heimild til að eiga aðild að fjarskiptafyrirtækjum.

Hins vegar gerist það í framhaldinu að þessi hugmynd sem kemur fram hjá ríkislögreglustjóra og Slökkviliðinu í Reykjavík um TETRA-fjarskiptakerfi er boðið út og aðrir aðilar fengu það þannig að ekki er um sömu nauðsyn að ræða og kannski hefði verið ef það hefði á sínum tíma verið samið beint við Landsvirkjun. Mér hefur skilist að aðrir aðilar hafi fengið þennan rekstur, hann hafi verið boðinn út, enda kemur það fram í bréfi sem ríkislögreglustjóri skrifar Landsvirkjun að það þurfi að bjóða þetta kerfi út. Menn eru á þeim tíma að reyna að gera sér grein fyrir kostnaði við rekstur kerfisins sem ríkisstjórnin sýndi á þeim tíma mjög mikinn áhuga á að yrði að veruleika og fékkst reyndar sérstök aukafjárveiting til undirbúnings þessa kerfis. Vegna þess að það var talið mjög mikilvægt fyrir löggæsluna í landinu sýndi hæstv. ríkisstjórn þann áhuga að leggja til sérstaka aukafjárveitingu til undirbúnings þessa TETRA-verkefnis. Gert var ráð fyrir að samið væri við þjónustuaðila og verkefnið mundi hugsanlega kosta um 300 millj. kr., 60 milljónir á ári miðað við fimm ára þjónustusamning.

Mér er ekki kunnugt um hver kostnaðurinn er eftir að útboðið var framkvæmt og spyr þess vegna hæstv. ráðherra hvort það liggi fyrir hver kostnaðurinn við TETRA-kerfið er, hver fékk það, hver fékk verkefnið sem upphaflega átti að vera samstarfsverkefni milli ríkislögreglustjóra og Landsvirkjunar. Engu að síður virðist Landsvirkjun hafa haldið umræðunni áfram innan sinna veggja um að mega gerast aðili að fjarskiptafyrirtækjum og semja við þau og þá fyrst og fremst með það í huga að nýta þau mannvirki sem Landsvirkjun hefur til umráða. Til þess þurfti að mati lögfræðinga þeirrar stofnunar að breyta lögum þannig að Landsvirkjun fengi þessa heimild.

Það er umhugsunarvert og á eftir að koma fyrir í fagnefnd sem fjallar um þetta mál Landsvirkjunar, þó að Landsvirkjun eigi og reki mjög öflugt kerfi í dag, hvort það liggi í hlutarins eðli að veita eigi Landsvirkjun heimild til þess að fara út í annars konar rekstur en Landsvirkjun stendur fyrir núna og lögin heimila henni. Það hlýtur að vera umhugsunarvert, ekki síst í ljósi þess að það hefur komið fram í umræðunni á undanförnum dögum að ef orkufyrirtæki á Akureyri er að sameinast Rarik, að sumra sögn að kaupa Rarik, og jafnvel að Landsvirkjunarhluti þeirrar veitu fari inn í það nýja fyrirtæki, hvort það er á þessum tímapunkti rétt að veita auknar heimildir til Landsvirkjunar. Það hlýtur að vera að það þurfi a.m.k. að fara mjög vel yfir alla þessa þætti.

[12:30]

Nú eru nokkur fyrirtæki í fjarskiptum og má vera að þau séu öll þannig að þau óski eftir samstarfi um einstök verkefni við Landsvirkjun til þess að nýta þau mannvirki sem Landsvirkjun hefur. En við hljótum samt sem áður að velta því fyrir okkur hvort þetta sé rétt leið og hvort hún samrýmist öðrum þeim frv. sem áður hafa komið fram og yfirlýstri stefnu ráðherra um þróun fjarskiptamála á landinu, hvort eðlilegt sé að veita þessu fyrirtæki sem er í meirihlutaeign ríkisins og reyndar tveggja stærstu sveitarfélaganna --- það er í eigu hins opinbera --- þessa heimild og hvort það samræmist þeirri stefnu sem hefur verið sett fram hvað varðar fjarskipti og fjarskiptafyrirtæki. Nefndin hlýtur að fara mjög vel yfir það.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að ég man ekki eftir því að við höfum rætt sérstaklega um þetta TETRA-fjarskiptakerfi hér: Hvaða aðilar buðu í og fengu verkið? Hvað kostar það? Hvernig miðar því og hefur fyrirtæki það sem fékk verkefnið hugsað sér að semja við Landsvirkjun um notkun á kerfi Landsvirkjunar?

Nú getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi ekki svör við þessum spurningum á takteinum hér og nú vegna þess að ég hafði ekki rætt það við ráðherrann að halda fyrir okkur neitt fræðsluerindi um TETRA-fjarskiptakerfið. En það tengist þessu frv. og frv. verður til vegna þeirrar umræðu sem á sér stað milli ríkislögreglustjóra og Landsvirkjunar og þeirra erinda sem fóru þar á milli fyrir tæpu ári síðan og virðist vera upphafið að því að Landsvirkjun sækist eftir því að vera með aðild að fjarskiptafyrirtækjum. Þess vegna hljóta spurningarnar í sjálfu sér að vera eðlilegar. Tengist Landsvirkjun áfram þessu TETRA-fjarskiptakerfi? Hvað kostar þetta verkefni sem hér er verið að tala um? Við munum auðvitað skoða það vel hvort það sé eðlileg þróun að Landsvirkjun fari inn á þennan fjarskiptamarkað eins og hann er og miðað við þá stefnu sem hefur verið sett fram af stjórnvöldum.